23 mars 2010

Þriðjudagurinn 23. mars 2010

Það er komið þriðjudagskvöld áður en ég veit af. Helgin var skemmtileg og heilmikið bardúsast.

Á laugardagsmorguninn hittist Miðjumafían (starfsmannafélag skrifstofunnar á miðhæð Vélaverkstæðisins) á Jómfrúnni í Lækjargötu. Það hefur staðið lengi til að hittast, og nú létum við verða af því. Það er vinsælt máltæki hjá einum vinnufélaga okkar að hinn eða þessi hafi farið á hádegisbarinn ef að eitthvað gengur brösuglega fyrir sig. Af því var þessi tími valinn, en þau voru einungis tvö sem stóðu undir nafni og fóru á hádegisbarinn. Við hin sem vorum á bíl fengum athugasemdir fyrir og var tekið af okkur loforð um að við myndum standa okkur betur næst.

Eftir hádegisverðinn hélt ég beina leið í Víðistaðakirkju þar sem Elísa var að taka þátt í sínu fyrsta kóramóti með kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju. Um var að ræða kóramót barnakóra í Hafnarfirði, og varð að tvískipta hópunum þar sem fjöldinn var orðinn svo mikill og dugði vart til, því að hvert sæti var skipað, og að auki staðið á öllum auðum blettum sem fundust í kirkjunni. Börnin stóðu sig með prýði og var virkilega gaman að hlusta á þau.

Á sunnudeginum var ég svo með matarboð fyrir foreldra okkar og fór allur sunnudagurinn í að undirbúa það. Og sem betur fer tókst það með ágætum.

Það var ekki nóg með að helgin væri annasöm, heldur lítur út fyrir að þessi vika verði það sömuleiðis. Í gærkvöldi fór ég á Súfistann í Hafnarfirði og hitti þar gamlar vinkonur sem ég var að vinna með á skattstofunni og hef haldið sambandi við síðan, þó að það hafi orðið heldur minna undanfarið en efni standa til. Þetta var hin ánægjulegasta kvöldstund og greinilegt að við höfum engu gleymt, en ýmislegt á daga okkar drifið síðan við hittumst síðast. Ég veit að það er ekki langt í að ég hitti aðra þeirra, enda er hún að ná fjórða tugnum í næsta mánuði, og vona svo sannarlega að það verði stutt í að ég hitti hina líka. Ég finn hvað svona stundir með góðum vinkonum veita mér mikla ánægju, og mér finnst verst að hitta vini mína allt of sjaldan.

Það er hálf skrýtið að vera bara heima í kvöld, en kærkomið, enda verða næstu tvö kvöld upptekin.

18 mars 2010

Miðvikudagurinn 17. mars 2010

Þá er skollið á mig eitt ár til viðbótar. Það ánægjulegt að vita til þess að árunum fjölgar, og ég er ennþá á lífi, og það góðu lífi að auki. Ég vona líka að ég sé orðin örlítið þroskaðri í dag en ég var fyrir ári síðan (þó ég efist nú stórlega um það á köflum).

Þessi afmælisdagur var afskaplega góður og notalegur. Ég var í vinnunni mestan hluta dagsins, bauð vinnufélögunum upp á kökur, þetta er notaleg hefð sem við höfum komið okkur upp hjá miðjumafíunni (starfsmannafélag skrifstofunnar) að koma með köku þegar við eigum afmæli. Eftir hádegið fór ég svo í ástandsskoðun (hina reglubundnum krabbameinsskoðun), ótrúlegt að borga fyrir það að láta pína sig svona.

Í kvöld bauð Óskar mér svo á veitingastaðinn Ítalíu, og áttum við þar notalega stund saman fjölskyldan við góðan mat og rólegheit. Eftir matinn skutlaði Óskar mér svo á kóræfingu þar sem Guðbjörg Tryggvadóttir hélt áfram að leiðbeina okkur með góða söngtækni svo að það fari nú að heyrast betur í kórnum. Við tvíburahálfsysturnar voru jafnframt kaffærðar í faðmlögum og góðum afmæliskveðjum, og var þetta hið ánægjulegasta kvöld.

Þegar komið er að ákveðnum tímamótum í lífinu er gott að horfa um farinn veg og sjá hvort maður vildi ekki hafa hlutina aðeins öðruvísi en þeir eru. Ég hef verið að skoða minn veg, og er engan veginn ánægð með þá leið sem ég hef valið að fara, að draga mig til baka og vera á stöðugu varðbergi um að ég sé að gera eitthvað rangt eða í ótta um að ég eigi eftir að klúðra málunum. Í gær þjófstartaði ég ákveðinni tilraun sem ég kalla "skítt með það þó aðrir telji mig fífl - nú ætla ég bara að njóta þess að vera til". Titillinn segir sig nokkuð sjálfur, en ég ætla að gera mitt besta í að sleppa af mér beislinu og vera ég sjálf, í stað þess að draga mig stöðugt í hlé. Satt að segja kemur árangurinn mér á óvart. Ég hélt að þetta væri erfiðara, þessir tveir dagar sem búnir eru lofa a.m.k. góðu. Í kvöld fannst mér ég a.m.k. vera mun frjálslegri á kóræfingu en ég hef verið lengi, og ánægjuleg viðbrögð sem ég fékk á móti. Vonandi verður þetta svona áfram.

06 mars 2010

5. mars 2010

Enn ein vikan liðin, og ekki alveg tíðindalaus, frekar en fyrri vikur.

Elísa var veik mest alla vikuna, með hósta hita og beinverki. Ekki oft sem hún verður svona slöpp í veikindunum eins og núna, en þegar leið á vikuna fór maður að þekkja aftur kelluna sína. Ég var heima með hana í miðvikudaginn og náði aðeins að undirbúa veisluna sem fyrirhuguð var í kvöld. Elísa fór svo í leikskólann í morgun hin hressasta, enda var hún alveg á útopnu í gær (fimmtudag) af hressleika. Þar sem ég var heima á miðvikudaginn þá komst ég á kóræfinguna um kvöldið, og sem betur fer, því að í staðinn fyrir Árna Heiðar var Guðbjörg, kórstjóri Veiranna sem sungu með okkur við messu einu sinni, mætt á staðinn, og tók okkur heldur betur í söngkennslu. Hún var með ýmsar mjög svo gagnlegar leikfimi- og söngæfingar fyrir okkur, og verð ég að segja eins og er að þetta er með gagnlegri æfingum sem ég hef farið á, þrátt fyrir að ég hafi fengið heldur meiri athygli frá henni en ég kærði mig um, og sumar æfingarnar hafi komið ansi spánskt fyrir sjónir. Það er a.m.k. ljóst að ég þarf að læra að opna munninn betur, og nú sé ég eftir að hafa ekki farið í kjálkaaðgerðina sem ég átti að fara í um árið, en lagði ekki í. Það verður æfing með henni aftur eftir hálfan mánuð, og hlakka ég til þess að hitta hana aftur, og vona þá að ég verði örlítið gegnari en síðast.

Í dag, þann 5. mars, áttu tengdaforeldrar mínir 50 ára brúðkaupsafmæli, og var af því tilefni haldin veisla hér hjá okkur, þar sem börnin og tengdabörnin buðu þeim upp á veislumat í tilefni dagsins. Það var kokkur á Selfossi sem matreiddi fyrir okkur þennan flotta veislumat, í forrétt var virkilega góður rækjukokteill, í aðalrétt fengum við tvenns konar úrbeinuð lambalæri og rostbeaf, og í eftirrétt var tobleroneís með heitri heimalagaðri súkkulaðisósu og sörur. Þetta var alveg virkilega gott, og kvöldið var vel heppnað og gullbrúðhjónin hin ánægðustu með kvöldið. Þau sögðu okkur frá því þegar þau kynntust fyrst og fóru í gegn um fyrstu búskaparárin, eitthvað sem ég hafði ekki vitað um áður. Þetta er a.m.k. stóráfangi hjá þeim, og var ég að reikna það út að okkur Óskar vantar ennþá 41 ár í að ná þessum áfanga, þá verð ég orðin 83 ára gömul og Óskar 88 ára ef okkur endist líf og aldur saman. Við höfum a.m.k. nægan tíma til að undirbúa þann áfanga ............

Á morgun, laugardag, hittumst við svo væntanlega öll í veislu aftur, þegar bróðursonur Óskars lætur skýra son sinn.

01 mars 2010

Síðasti dagur febrúarmánaðar

Alveg ágætis dagur að kveldi kominn, og enn ein helgin sem flýgur hjá áður en við er litið.

Í dag var jazzmessa sem óháði kórinn er búinn að vera að æfa fyrir undanfarið. Þetta var létt og lífleg messa, enda fantagóðir hljóðfæraleikarar sem spiluðu með okkur, og söngurinn hjá okkur gekk að mestu stórskandalalaust.

Eftir messuna þáðum við fjölskyldan heimboð frá Svani frænda mínum sem ég hef haft mjög lítið af að segja þar til í sumar að við hittum hann á ættarmóti, en það á vonandi eftir að breytast til hins betra. Hjá honum hittum við einnig Lilju systur hans (af 15 systkynum) sem við höfðum hitt á þessu sama ættarmóti, og áttum við góða stund með þeim og mökum þeirra. Eftir að frænka mín yfirgaf okkur, var sest við tölvuna og farið yfir ættfræðigrunn sem frændi minn hefur verið duglegur að færa inn í, en við tókum með nokkur ættartöl fyrir hann svo að hann gæti bætt inní það sem hann vantaði. Þetta var mjög fróðlegt spjall hjá okkur, og er ég margs fróðari um ætt mína og uppruna eftir þessa heimsókn. Til dæmis vissi ég ekki áður að ein formóðir mín, sem fædd var 1801 hefur alið af sér 2200 afkomendur, á ekki lengri tíma en 200 árum. Geri aðrir betur. Það er ekki laust við að ég sé farin að hlakka til að grúska meira í þessu, enda fengum við afrit af grunninum hjá honum til þess að skoða betur. Ég verð væntanlega ekki viðræðuhæf á næstunni.

Við tekur ný vinnuvika, sem vonandi verður aðeins rólegri en síðasta vika, sem reyndist harla stíf þegar til kom, en það lítur engu að síður út fyrir mjög stífa dagskrá enn eina vikuna. Ekki laust við að ég sé farin að þrá eins og eina viku þar sem ekkert liggur fyrir á kvöldin annað en hefðbundin heimilisstörf og afslöppun.

Andartaks skortur á umburðarlyndi getur kostað ævilanga iðrun.
Kínverskt spakmæli