19 ágúst 2010

Hinn ljúfi ágústmánuður

Áður en við er litið er farið að síga á seinnihluta ágústmánaðar en enn einn sumardagurinn brosir við okkur. Það er ljúft að hafa varla farið í yfirhöfn yfir sumarið, og núna í miðjum ágúst virðist ekkert lát á blíðunni. Þetta líkar mér.

Um síðustu helgi skruppum við fjölskyldan að Hvaleyrarvatni og fengum okkur göngutúr í kring um vatnið. Þetta er óskaplega fallegt svæði og svo stutt frá bænum. Vatnsborð vatnsins er frekar lágt, og var óneitanlega skrítið að sjá bryggjuendann í eins til tveggja metra fjarlægð frá vatnsjaðrinum. Veðrið var líka nokkuð gott, sól en dálítill vindur en ágætlega hlýtt.

Um helgina náði ég að klára fyrsta stóra bútasaumsteppið mitt, sem var mánaðarverkefni í Virku 2008, ,,lodge and the lakeside,, frá Thimbleberries. Ekki seinna vænna að fara að klára gripinn. Ég lauk reyndar við framhliðina á því um verslunarmannahelgina í fyrra, keypti efnið í bakið út í Orlando í janúar, og gerði heiðarlega tilraun til að þræða það sjálf. En þar sem það er um 7 fermetrar á stærð, gafst ég fljótlega upp á því, enda þurfti ég að flytja öll húsgögn úr borðstofunni í hvert sinn, til að ég gæti þrætt það flatt. Það kom svo í ljós þegar ég fór með það í vattstungu að konan sem stingur teppin vill fá það óþrætt. Næsta verkefni er að klára dúkinn frá saumahelginni á Hótel Hlíð síðasta haust. Ég þarf að spretta honum aðeins upp og lagfæra áður en ég get saumað hann saman aftur. Það er betra að vera búinn með hann fyrir næstu saumahelgi, en ég fer á saumahelgi hjá Virku helgina 6. – 8. október á Hótel Örk. Það verður án efa mjög skemmtileg helgi og gaman að sjá hvaða verkefni við fáum að spreyta okkur á núna. Við fáum víst ekkert að vita fyrr en við mætum á staðinn.

Í gær nýtti ég blíðuna til ljúka við að tína ber út í garði (full klædd samt að sjálfsögðu). Rifsberin eru svo rauð og falleg, helst til rauð ef eitthvað er. Ég náði að klára að tína allt sem ég ætla að nýta af trjánum og er hann frekar litlaus greyið eftir meðferðina hjá mér. Það voru nokkrir geitungar sem gerðu heiðarlega tilraun til að flæma mig í burtu en með litlum árangri. Og í þetta sinn lét ég þá ekki plata mig í neitt knús eða kjass, er ekki búin að gleyma stungunni sem ég fékk við faðmlög við geitung í fyrra. Undir lok tínslunnar var farið að rigna en það var bara hressandi, enda hitinn í kringum 15 – 16 stig. Í gærkvöldi var svo öllu skellt í pott og gerð saft fyrir tilvonandi hlaupgerð. Það verður vonandi orðið búsældarlegt í búrskápnum áður en langt um líður, því að í frystinum er rabbabari sem eftir er að sulta úr. Þó að það sé erfitt að sjá á eftir sumrinu, þá fylgir ákveðin stemming haustverkunum, eins og sultun og sláturgerð.

Í kvöld hittumst við vinahópurinn í Sæmundarseli, sem er útikennslusvæði frá Sæmundarskóla í Grafarholti, við Reynisvatn, til að grilla saman, eitthvað sem við höfum gert einu sinni á sumri í nokkur àr. Það gekk ekki þrautalaust fyrir okkur að finna staðinn en gekk fyrir rest eftir að við fundum nýjar slóðir sem þarfnast nánari skoðunar síðar. Þetta svæði er mjög sniðugt, fallegur trjàlundur með gömlum og háum trjám, og flott leiksvæði fyrir börn, trjáhús, brýr með trjábolum, rólur og þrautabraut, allt gert úr efniviði úr umhverfinu, trjábolum og torfi. Við vorum með tvenn gasgrill með okkur en þarna er ekki sérstök grillaðstaða. Setuaðstaðan var líka fremur óhentug og flaug ýmislegt um koll ef óvarlega var farið, þar á meðal fékk ég góða flugferð, og sè fram á glæsilegan marblett á öðru lærinu. Sólin og blíðan lék við okkur, þó að sólin næði reyndar ekki inn á aðalsvæðið þar sem við vorum vegna trjánna, en þá var stutt niður á flöt við vatnið þar sem við gàtum sleikt sólina.

3 Ummæli:

Anonymous Anna sagði...

Mér sýndist þetta; Að þú hefðir fengið skell. Reyndar sá ég ekki hvernig það bar að því þú gerðir það svo hávaðalaust að ég efast um að flestir viðstaddir hafi tekið eftir því ;-) nema auðvitað maðurinn þinn sem var alveg rétt við atvikið.
Takk annars fyrir síðast, "hálftvíburasystir" kær!

23. ágúst 2010 kl. 10:13  
Blogger Sonja sagði...

Bóndinn sá þetta og hló svo mikið að það var lítil aðstoð í honum ...... mér fannst það líka óþarfi að auglýsa þennan klaufagang neitt, ég sat á endanum á plankanum, svo stóð bóndinn skyndilega upp, held ég þurfi ekkert að segja meir .....

23. ágúst 2010 kl. 10:25  
Blogger Sonja sagði...

Já, og takk fyrir síðast mín kæra.

23. ágúst 2010 kl. 12:29  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim