03 ágúst 2010

9. ágúst 2010

Sumarfríið á enda runnið í bili a.m.k.

Allt tekur enda, og eins er það með þetta góða sumarfrí sem ég er búin að eiga núna undanfarinn mánuð. Þetta var mjög notalegt og gott frí, og þó að það sé gott að vera í fríi þá er líka mjög gott að komast í vinnuna aftur, í gömlu rútínuna og hitta vinnufélagana á ný.

Föstudaginn 2. júlí var síðasti vinnudagur fyrir sumarfrí. Við brunuðum fljótlega í bústaðinn þar sem við eyddum helginni. Á laugardeginum skruppum við mæðgur á ættarmót í Skorradalnum í sumarbústað frænku minnar og var virkilega gaman að hitta ættingja mína úr föðurættinni, en þeirri ætt hef ég kynnst minna en úr móðurættinni. Ég fór á ættarmót með þeim í fyrra líka og finn að ég er strax farin að kynnast fólkinu betur.


Fyrstu vikunni af sumarfríinu var síðan eytt í bænum, enda nóg að gera hér við heimilisverk og ýmislegt annað dundur með skottunni, sem náði þeim merka áfanga að hætta sem leikskólastelpa og verða tilvonandi skólastelpa. Á föstudeginum var bróðir tengdapabba jarðaður, en hann varð bráðkvaddur vikuna áður. Útförin var mjög falleg og veðrið gott. Síðan var bíllinn fylltur af útilegudóti, gamla tjaldinu sem ég keypti mér þegar ég var rúmlega tvítug, og ýmsum öðrum viðlegubúnaði, því nú skyldi skottan kynnast almennilegri útilegu. Við mæðgurnar vorum síðan í bústaðnum meira og minna næstu 10 daga á eftir. Við fengum góða heimsókn frá góðri vinkonu, og fórum við saman í rúnt um dalina (Fellsströnd og Skarðsströnd) í alveg frábæru veðri. Það var nú svo sem ekki hægt að kvarta yfir veðrinu sem ég hef fengið í þessu sumarfríi, hver dagurinn hefur verið öðrum betri. En einhver bið verður á útilegunni, tjaldið fór reyndar upp við bústaðinn, og stóð þar í þrjá daga áður en ég pakkaði því niður aftur. Vonandi verður framtakssemin hjá mér meiri á næsta ári, nema ég láti verða af því að fara í helgarútilegu áður en dótið verður tekið úr bílnum aftur.


Vikuna fyrir verslunarmannahelgina var litlu dömunni skutlað austur fyrir fjall til ömmu og afa og ég fór til vinnu. Taldi mig nú geta klárað það sem eftir var á einum og hálfum til tveimur dögum, en svo fór að þetta urðu þrír dagar og eitt kvöld sem tók mig að vinna upp það sem eftir var fyrir mánaðarmót. Allt gekk þetta samt að lokum, og á föstudeginum var stefnan tekin í Grímsnesið til vinafólks okkar, en þau buðu okkur og sameiginlegum vini í grillveislu. Við áttum með þeim góða dag- og kvöldstund og gott betur en það, vorum ekki komin heim fyrr en um miðja nótt, enda mörg þjóðmál sem þurfti að kryfja auk þess sem heiti potturinn var prófaður og tekinn göngutúr um næsta nágrenni.


Á laugardeginum var svo stefnan tekin til Akureyrar þar sem foreldrar mínir voru með íbúð á leigu. Vorum við þar í góðu yfirlæti alla helgina, á sunnudeginum var farið í Ásbyrgi, þar sem við fengum okkur göngutúr að tjörninni og nutum þessa fallega umhverfis, síðan var sest á bekk og nestinu gerð góð skil. Eftir það ókum við hálfgerða troðninga en mjög fallega leið, að Vesturdal, og að sjálfsögðu fengum við okkur göngutúr að hljóðaklettum og gaf sú stutta okkur eldra fólkinu ekkert eftir í göngunni. Á heimleiðinni fórum við um Hólssand og stoppað við að Dettifossi og síðan ókum við meðfram Mývatni. Ég hef ekki komið í Ásbyrgi og Vesturdal síðan ég var 6 - 7 ára, og man ekkert eftir því. Og ég held að ég hafi aldrei komið að Dettifossi áður Þetta var því jafn nýtt fyrir mér og bóndanum sem hafði aldrei komið á þessar slóðir áður. Veðrið var ekki til að kvarta yfir. Núna er draumurinn hjá mér að fara þangað aftur og ganga frá Vesturdal meðfram Jökulsánni að Ásbyrgi. Hvort eitthvað verður af því verður hins vegar bara að koma í ljós.


Á mánudeginum fórum við með litlu dömuna í sund, og var hún hálf smeyk við sundlaugina í byrjun. Hún var samt alveg æst í að fara í stóru rennibrautina - þar til hún var komin á toppinn, þá gugnaði sú stutta á því, og við fórum niður stigann til baka. Hún fann hins vegar aðra öllu meinlausari rennibraut, og fór salíbunu niður og fannst mjög gaman. Hún vildi síðan fara aðra ferð, en eitthvað var sú ferð ógnvænlegri en hin því hræðslusvipurinn á barninu var mikill þegar neðar dró. Hún sagði að þetta hefði verið mjög gaman, en hún vildi samt ekki fara aftur. Við gerðum aðra tilraun til að venja hana við sundlaugina og eftir dálitla vinnu með henni og fortölur var hún farin að busla sjálf og synda hundasund endanna á milli og vildi engan veginn hætta fyrr en hún var orðin frekar þreytt. Eftir sundferðina pökkuðum við farangrinum okkar saman og héldum suður á bóginn, barnlaus að vísu. Stoppuðum eina nótt í kotinu okkar á vesturlandinu, og héldum í bæinn um miðjan dag á þriðjudag.


Núna er allt komið á fullan gang, sú stutta komin á leikjanámskeið fram að skóla og ég komin á fullt í vinnuna aftur.

1 Ummæli:

Anonymous Anna sagði...

Þú kannt svo sannarlega að njóta lífsins, Sonja mín :-). Frábært hvað þú ert búin að vera heppin með veður!!! Endilega frestaðu því að taka útilegudótið inn úr bílnum amk út mánuðinn. Ég er líka viss um að þú átt eftir að láta göngudrauma þína rætast! :-) Farðu vel með þig!!!

12. ágúst 2010 kl. 12:54  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim