Þriðjudagurinn 23. mars 2010
Það er komið þriðjudagskvöld áður en ég veit af. Helgin var skemmtileg og heilmikið bardúsast.
Á laugardagsmorguninn hittist Miðjumafían (starfsmannafélag skrifstofunnar á miðhæð Vélaverkstæðisins) á Jómfrúnni í Lækjargötu. Það hefur staðið lengi til að hittast, og nú létum við verða af því. Það er vinsælt máltæki hjá einum vinnufélaga okkar að hinn eða þessi hafi farið á hádegisbarinn ef að eitthvað gengur brösuglega fyrir sig. Af því var þessi tími valinn, en þau voru einungis tvö sem stóðu undir nafni og fóru á hádegisbarinn. Við hin sem vorum á bíl fengum athugasemdir fyrir og var tekið af okkur loforð um að við myndum standa okkur betur næst.
Eftir hádegisverðinn hélt ég beina leið í Víðistaðakirkju þar sem Elísa var að taka þátt í sínu fyrsta kóramóti með kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju. Um var að ræða kóramót barnakóra í Hafnarfirði, og varð að tvískipta hópunum þar sem fjöldinn var orðinn svo mikill og dugði vart til, því að hvert sæti var skipað, og að auki staðið á öllum auðum blettum sem fundust í kirkjunni. Börnin stóðu sig með prýði og var virkilega gaman að hlusta á þau.
Á sunnudeginum var ég svo með matarboð fyrir foreldra okkar og fór allur sunnudagurinn í að undirbúa það. Og sem betur fer tókst það með ágætum.
Það var ekki nóg með að helgin væri annasöm, heldur lítur út fyrir að þessi vika verði það sömuleiðis. Í gærkvöldi fór ég á Súfistann í Hafnarfirði og hitti þar gamlar vinkonur sem ég var að vinna með á skattstofunni og hef haldið sambandi við síðan, þó að það hafi orðið heldur minna undanfarið en efni standa til. Þetta var hin ánægjulegasta kvöldstund og greinilegt að við höfum engu gleymt, en ýmislegt á daga okkar drifið síðan við hittumst síðast. Ég veit að það er ekki langt í að ég hitti aðra þeirra, enda er hún að ná fjórða tugnum í næsta mánuði, og vona svo sannarlega að það verði stutt í að ég hitti hina líka. Ég finn hvað svona stundir með góðum vinkonum veita mér mikla ánægju, og mér finnst verst að hitta vini mína allt of sjaldan.
Það er hálf skrýtið að vera bara heima í kvöld, en kærkomið, enda verða næstu tvö kvöld upptekin.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim