Nýjir nágrannar
Það er mikið dýralíf í Mosfellsbænum, það fengu við að kynnast um daginn. Eitt kvöldið í vikunni hringdu nágrannar okkar í okkur og létu okkur vita að það gæti orðið neistaflug og læti hjá þeim síðar um kvöldið þar sem þau væru að eyða holugeitungabúi við lóðarmörkin hjá okkur, og því betra líka að loka gluggum ef eitthvað færi úrskeiðis.
Daginn eftir var hinn handlagni heimilisfaðir að klippa trén í garðinum okkar og veit þá ekki fyrr til en hann verður fyrir árás all kröftugri. Hann sá sér þann eina kost vænstan að skutla frá sér trjáklippunum og hlaupa eins og fæturnir leyfðu inn í hús. Eftir skamma stund fór hann nú samt til baka til að ná í trjáklippurnar, sem ennþá hömuðust eins og óðar væru í grasinu. Hann kannaði jafnframt aðstæður og sá að við höfðum fengið nýja nágranna. Á grein inni í trjánum sat þetta stæðilega geitungabú á stærð við handbolta.
Í gærkvöldi sagði hinn handlagni heimilisfaðir nýju nágrönnunum stríð á hendur. Íklæddur vöðlum, kuldaúlpu, vel fóðruðum hönskum og flugnaneti réðst hann til atlögu að búinu og svæfði kvikyndin með lásaspreyi, því hér dugðu víst engar vögguvísur takk fyrir. Eftir svæfinguna var svo að grípa til eitursins og duggði ekkert minna en permasect til þess arna, blönduðu í vatni. Þessar aðfarir virkuðu það vel að það var ekki lífsmark að sjá í morgun þegar við fórum í vinnuna.
Nú eru nýju nágrannarnir á öskuhaugunum í plastpoka og verða væntanlega ekki til vandræða meira í þessu lífi.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim