04 september 2003

Nú er farið að styttast í hina langþráðu Danmerkur- og Þýskalandsferð mína. Ferðaáætlunin er langt komin í það að verða tilbúin, svo að það eina sem er eftir er að pakka og reyna að muna eftir öllu sem taka á með, þar á meðal regngallann og regnhlífina sem við þurfum vonandi ekkert á að halda.

Ég er satt að segja búin að fá meira en nóg af skattframtölum þessa dagana og langar til að breyta um umhverfi. Síðustu tveir dagar hafa verið sérstaklega langir í vinnunni, svo að það skýrir nú eitthvað. Þó svo að ég hafi tekið eina og hálfa viku í frí í ágúst, þá greinilega nægði sá tími ekki til að hafa varanleg áhrif á pappírsþreytuna í mér. Og veðurfarið núna er ekki til að auka á ánægjuna, ekta íslenskt slagveður, nú kannast ég við mig.

En ég hef fleira til að hlakka til því að það eru bara átta dagar í að við gömlu kór- og skólafélagar úr Fsu hittumst ásamt mökum. Þetta er hópur sem var mikið saman hér á árum áður, en erum komin hvert í sína áttina, svo að suma úr hópnum hitti ég mjög sjaldan, og það oft með einhverra ára millibili. Nú erum við búin að sjá til þess að við hittumst ekki sjaldnar en einu sinni á ári, með því að hittast að hausti þegar óbyggðafólkið kemur til byggða. Við hittumst í fyrsta skiptið næstum öll í fyrra eftir margra ára hlé, grilluðum saman og skemmtum okkur langt fram eftir kvöldi, og var því heitið að þetta yrði endurtekið að ári. Og loksins er að koma að því.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim