Þetta sumar var helst til stutt. A.m.k. er ég ekki sátt við þennan kulda eftir annars gott vor. Úlfarsfellið var hvítt í gær alveg niður á láglendi en sem betur fer sluppum við algjörlega við snjóinn, það er meira en hægt var að segja um aðra. Að minnsta kosti var hvítt yfir á að líta á Selfossi, og líklegast var meiri snjór á Hellisheiðinni en meirihluta vetrar.
Síðustu vikur eru búnar að vera frekar sérstakar, þrír fimmtudagar í röð þar sem er frí frá vinnu, skv. dagatalinu a.m.k. Næsta vinnuvika verður örugglega erfið, heilir fimm virkir dagar. Og nú er kominn annar föstudagur þessarar viku - er nema von að maður ruglist aðeins í dagatalinu.
Annars átti ég góðan frídag í gær. Deginum var ekki eytt í kulda og trekki í kröfugöngu verkalýðsins og á baráttufundum, eða á kafflihlaðborðum verkalýðsfélaganna. Nei, við nutum þess að eiga frí og fórum eftir hádegið austur fyrir fjall í Fljótshlíðina í sumarbústað til mágs míns og fjölskyldu hans. Þar áttum við notanlegan dag við spjall, spiluðum kana í gríð og erg. Krakkarnir voru að reyna að leika sér úti í sólinni, en gáfust fljótlega upp á því út af kulda, enda var hífandi rok - ekta gluggaveður. Við grilluðum samt úti í kuldanum og tókum síðan aðra umferð af kana.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim