01 mars 2010

Síðasti dagur febrúarmánaðar

Alveg ágætis dagur að kveldi kominn, og enn ein helgin sem flýgur hjá áður en við er litið.

Í dag var jazzmessa sem óháði kórinn er búinn að vera að æfa fyrir undanfarið. Þetta var létt og lífleg messa, enda fantagóðir hljóðfæraleikarar sem spiluðu með okkur, og söngurinn hjá okkur gekk að mestu stórskandalalaust.

Eftir messuna þáðum við fjölskyldan heimboð frá Svani frænda mínum sem ég hef haft mjög lítið af að segja þar til í sumar að við hittum hann á ættarmóti, en það á vonandi eftir að breytast til hins betra. Hjá honum hittum við einnig Lilju systur hans (af 15 systkynum) sem við höfðum hitt á þessu sama ættarmóti, og áttum við góða stund með þeim og mökum þeirra. Eftir að frænka mín yfirgaf okkur, var sest við tölvuna og farið yfir ættfræðigrunn sem frændi minn hefur verið duglegur að færa inn í, en við tókum með nokkur ættartöl fyrir hann svo að hann gæti bætt inní það sem hann vantaði. Þetta var mjög fróðlegt spjall hjá okkur, og er ég margs fróðari um ætt mína og uppruna eftir þessa heimsókn. Til dæmis vissi ég ekki áður að ein formóðir mín, sem fædd var 1801 hefur alið af sér 2200 afkomendur, á ekki lengri tíma en 200 árum. Geri aðrir betur. Það er ekki laust við að ég sé farin að hlakka til að grúska meira í þessu, enda fengum við afrit af grunninum hjá honum til þess að skoða betur. Ég verð væntanlega ekki viðræðuhæf á næstunni.

Við tekur ný vinnuvika, sem vonandi verður aðeins rólegri en síðasta vika, sem reyndist harla stíf þegar til kom, en það lítur engu að síður út fyrir mjög stífa dagskrá enn eina vikuna. Ekki laust við að ég sé farin að þrá eins og eina viku þar sem ekkert liggur fyrir á kvöldin annað en hefðbundin heimilisstörf og afslöppun.

Andartaks skortur á umburðarlyndi getur kostað ævilanga iðrun.
Kínverskt spakmæli

1 Ummæli:

Anonymous Anna sagði...

Ég vona að þú eigir líka eftir að blogga um síðustu kóræfingu. Ætla að reyna að setja niður eitthvað um það sjálf seinna í dag en það væri fróðlegt að geta borið saman færslurnar ;-)

5. mars 2010 kl. 09:19  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim