18 mars 2010

Miðvikudagurinn 17. mars 2010

Þá er skollið á mig eitt ár til viðbótar. Það ánægjulegt að vita til þess að árunum fjölgar, og ég er ennþá á lífi, og það góðu lífi að auki. Ég vona líka að ég sé orðin örlítið þroskaðri í dag en ég var fyrir ári síðan (þó ég efist nú stórlega um það á köflum).

Þessi afmælisdagur var afskaplega góður og notalegur. Ég var í vinnunni mestan hluta dagsins, bauð vinnufélögunum upp á kökur, þetta er notaleg hefð sem við höfum komið okkur upp hjá miðjumafíunni (starfsmannafélag skrifstofunnar) að koma með köku þegar við eigum afmæli. Eftir hádegið fór ég svo í ástandsskoðun (hina reglubundnum krabbameinsskoðun), ótrúlegt að borga fyrir það að láta pína sig svona.

Í kvöld bauð Óskar mér svo á veitingastaðinn Ítalíu, og áttum við þar notalega stund saman fjölskyldan við góðan mat og rólegheit. Eftir matinn skutlaði Óskar mér svo á kóræfingu þar sem Guðbjörg Tryggvadóttir hélt áfram að leiðbeina okkur með góða söngtækni svo að það fari nú að heyrast betur í kórnum. Við tvíburahálfsysturnar voru jafnframt kaffærðar í faðmlögum og góðum afmæliskveðjum, og var þetta hið ánægjulegasta kvöld.

Þegar komið er að ákveðnum tímamótum í lífinu er gott að horfa um farinn veg og sjá hvort maður vildi ekki hafa hlutina aðeins öðruvísi en þeir eru. Ég hef verið að skoða minn veg, og er engan veginn ánægð með þá leið sem ég hef valið að fara, að draga mig til baka og vera á stöðugu varðbergi um að ég sé að gera eitthvað rangt eða í ótta um að ég eigi eftir að klúðra málunum. Í gær þjófstartaði ég ákveðinni tilraun sem ég kalla "skítt með það þó aðrir telji mig fífl - nú ætla ég bara að njóta þess að vera til". Titillinn segir sig nokkuð sjálfur, en ég ætla að gera mitt besta í að sleppa af mér beislinu og vera ég sjálf, í stað þess að draga mig stöðugt í hlé. Satt að segja kemur árangurinn mér á óvart. Ég hélt að þetta væri erfiðara, þessir tveir dagar sem búnir eru lofa a.m.k. góðu. Í kvöld fannst mér ég a.m.k. vera mun frjálslegri á kóræfingu en ég hef verið lengi, og ánægjuleg viðbrögð sem ég fékk á móti. Vonandi verður þetta svona áfram.

2 Ummæli:

Anonymous Anna sagði...

Já, þetta var yndislegur dagur í gær. Ánægð með þig og þína ákvörðun, vinkona. Hef fulla trú á að þessi tilraun þín heppnist.

18. mars 2010 kl. 08:51  
Blogger Sonja sagði...

Já, ég ætla líka að láta hana heppnast. Er klár á að það á bara eftir að vera til góðs.

18. mars 2010 kl. 11:41  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim