06 mars 2010

5. mars 2010

Enn ein vikan liðin, og ekki alveg tíðindalaus, frekar en fyrri vikur.

Elísa var veik mest alla vikuna, með hósta hita og beinverki. Ekki oft sem hún verður svona slöpp í veikindunum eins og núna, en þegar leið á vikuna fór maður að þekkja aftur kelluna sína. Ég var heima með hana í miðvikudaginn og náði aðeins að undirbúa veisluna sem fyrirhuguð var í kvöld. Elísa fór svo í leikskólann í morgun hin hressasta, enda var hún alveg á útopnu í gær (fimmtudag) af hressleika. Þar sem ég var heima á miðvikudaginn þá komst ég á kóræfinguna um kvöldið, og sem betur fer, því að í staðinn fyrir Árna Heiðar var Guðbjörg, kórstjóri Veiranna sem sungu með okkur við messu einu sinni, mætt á staðinn, og tók okkur heldur betur í söngkennslu. Hún var með ýmsar mjög svo gagnlegar leikfimi- og söngæfingar fyrir okkur, og verð ég að segja eins og er að þetta er með gagnlegri æfingum sem ég hef farið á, þrátt fyrir að ég hafi fengið heldur meiri athygli frá henni en ég kærði mig um, og sumar æfingarnar hafi komið ansi spánskt fyrir sjónir. Það er a.m.k. ljóst að ég þarf að læra að opna munninn betur, og nú sé ég eftir að hafa ekki farið í kjálkaaðgerðina sem ég átti að fara í um árið, en lagði ekki í. Það verður æfing með henni aftur eftir hálfan mánuð, og hlakka ég til þess að hitta hana aftur, og vona þá að ég verði örlítið gegnari en síðast.

Í dag, þann 5. mars, áttu tengdaforeldrar mínir 50 ára brúðkaupsafmæli, og var af því tilefni haldin veisla hér hjá okkur, þar sem börnin og tengdabörnin buðu þeim upp á veislumat í tilefni dagsins. Það var kokkur á Selfossi sem matreiddi fyrir okkur þennan flotta veislumat, í forrétt var virkilega góður rækjukokteill, í aðalrétt fengum við tvenns konar úrbeinuð lambalæri og rostbeaf, og í eftirrétt var tobleroneís með heitri heimalagaðri súkkulaðisósu og sörur. Þetta var alveg virkilega gott, og kvöldið var vel heppnað og gullbrúðhjónin hin ánægðustu með kvöldið. Þau sögðu okkur frá því þegar þau kynntust fyrst og fóru í gegn um fyrstu búskaparárin, eitthvað sem ég hafði ekki vitað um áður. Þetta er a.m.k. stóráfangi hjá þeim, og var ég að reikna það út að okkur Óskar vantar ennþá 41 ár í að ná þessum áfanga, þá verð ég orðin 83 ára gömul og Óskar 88 ára ef okkur endist líf og aldur saman. Við höfum a.m.k. nægan tíma til að undirbúa þann áfanga ............

Á morgun, laugardag, hittumst við svo væntanlega öll í veislu aftur, þegar bróðursonur Óskars lætur skýra son sinn.

1 Ummæli:

Anonymous Anna sagði...

Til hamingju með tengdaforeldra þína. Skemmmtilegur pistill alveg út í gegn! :-)

8. mars 2010 kl. 08:28  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim