29 september 2010

Komin heim, - og pistill um það þegar konur eldast .......

Þá erum við komin heim frá Berlín, áttum mjög góða ferð, og set ég væntanlega ágrip af ferðasögunni inn þegar tími gefst.

En ég fékk sendan þennan pistil um það hvaða áhrif það hefur á konur að eldast - á léttum nótum - og finnst það eiga vel við þar sem ég finn fyrir því að er farin að eldast, og þá er gott að eiga tillitssaman og góðan mann .......

Þegar konur eldast.
Grein eftir Hjört Jónsson

Það er mikilvægt fyrir karlmenn að muna, að eftir því sem konur eldast verður erfiðara fyrir þær að halda sömu gæðum í húsverkunum og þegar þær voru ungar. Þegar þú tekur eftir þessu, reyndu ekki að æpa á hana. Sumar konur eru ofurviðkvæmar, og það er ekkert verra til en ofurviðkvæm kona.

Ég heiti Hjörtur. Ég ætla að segja ykkur hvernig ég tókst á við þetta ástand varðandi konuna mína hana Hrönn. Þegar ég settist í helgan stein fyrir nokkrum árum, þurfti Hrönn auðvitað að fá sér heildagsvinnu meðfram hlutastarfinu, bæði til þess að auka tekjur heimilisins og halda sparnaði okkar hjóna gangandi. Fljótlega eftir að hún fór að vinna tók ég þó eftir að aldurinn fór að sjást á henni.
Ég kem venjulega heim úr golfi á sama tíma og hún kemur heim úr vinnunni.
Þó hún viti hvað ég er svangur, þá þarf hún næstum alltaf að hvíla sig í hálftíma áður en hún fer að elda matinn. Ég æpi þó ekki á hana. Í staðinn segi ég henni að taka þann tíma sem hún þarf og vekja mig bara þegar maturinn er kominn á borðið. Ég borða venjulega hádegismat í "Heiðursmannagrillinu" í klúbbhúsinu þannig að það er auðvitað ekkert á dagskránni að fara út að borða.
Áður fyrr var Hrönn vön að vaska upp um leið og við vorum búin að borða. Nú er hinsvegar ekkert óvenjulegt að það bíði jafnvel í nokkra tíma. Ég geri það sem ég get með því að minna hana á það á nærgætinn hátt að diskarnir þvoi sig ekki sjálfir. Ég veit að hún kann að meta þetta, þar sem það virðist hvetja hana til að klára uppvaskið áður en hún fer að sofa.
Annað einkenni öldrunar er kvörtunaráráttan held ég. Til dæmis heldur hún því fram að það sé erfitt að finna tíma til að greiða reikningana í matartímanum. En strákar, við lofuðum að standa með þeim í blíðu og stríðu, svo ég brosi bara og býð fram hvatningu. Ég segi henni bara að dreifa þessu á tvo til þrjá daga. Þannig þarf hún ekki að flýta sér eins mikið. Ég minni hana líka á að þótt hún missi af matartímanum af og til sé það allt í lagi ( þið vitið hvað ég meina ). Mér finnst reyndar nærgætni einn af mínum betri kostum.Þegar hún vinnur einfaldari verkefni, virðist hún halda að hún þurfi fleiri hvíldarstundir. Hún varð til dæmis að taka pásu þegar hún var einungis hálfnuð með að slá blettinn. Ég reyni að vera ekki með uppistand. Ég er sanngjarn maður. Ég segi henni að útbúa sér stórt glas af nýpressuðum köldum appelsínusafa og setjast í smástund. Og þar sem hún er að gera þetta, bið ég hana að blanda einn fyrir mig í leiðinni.
Ég veit að væntanlega lít ég út eins og dýrlingur vegna þess hvernig ég styð hana Hrönn mína. Það er ekkert auðvelt að sýna svona mikla tillitssemi. Mörgum karlmönnum finnst það erfitt. Og mörgum finnst það alveg ómögulegt ! Það veit enginn betur en ég hversu pirrandi konur verða þegar þær eldast.
En strákar, ef þið hafið lært það af þessarri grein að vera nærgætnari og minna gagnrýnir á konurnar ykkar sem eru að eldast lít ég svo á að þetta hafi verið þess virði að setja á blað. Við megum ekki gleyma því að við fæddumst á þessa jörð til hjálpa hver öðrum.


Kveðja,
Hjörtur Jónsson

Athugasemd ritstjóra:
Hjörtur Jónsson lést skyndilega þann 27. maí sl. af blæðingum í endaþarmi. Samkvæmt lögregluskýrslu fannst Calloway extra löng 50 tommu Big Bertha golfkylfa á kafi í rassgatinu á honum, þannig að aðeins stóðu tíu cm af handfanginu út, og við hliðina var sleggja. Hrönn konan hans var handtekin og ákærð fyrir morðið. Kviðdómurinn sem eingöngu var skipaður konum var 15 mínútur að komast að niðurstöðu sem varþessi: Við föllumst á það sem fram kemur í vörn Hrannar að Hjörtur hafi einhvern veginn, án þess að gera sér grein fyrir því, sest ofan á eigin golfkylfu.



14 september 2010

September hálfnaður

Þá er september mánuður brátt hálfnaður og ýmislegt sem hefur á daga drifið eins og venjulega.

Litla skólastelpan er hæstánægð í skólanum, reyndar eru einhverjir hrekkjalómar sem eru að gera henni lífið leitt, en mér heyrist kennarinn hennar ætli að taka á þeim málum. Hún er byrjuð að lesa pínulítið, tvö til þrjú atkvæði í einu, og hefur mikinn áhuga á að læra meira. Einnig er hún byrjuð að skrifa stafina á fullu, og dundar sér við það á daginn eftir skóla.

Síðasta helgi var annasöm. Á föstudaginn fór ég á sýninguna "bút fyrir bút" í Perlunni, en þar heldur íslenska bútasaumsfélagið sýningu á flottum bútasaumsverkum í tilefni 10 ára afmæli félagsins. Þessi sýning ollin engum vonbrigðum, fullt af mjög fallegum verkefnum, og ómældar vinnustundir sem liggja að baki þessum verkefnum. Það var mikill fjöldi fólks sem var á sýningunni og þurfti stundum að sæta lagi til að komast að þeim teppum sem ég vildi skoða nánar, en allt gekk þetta á endanum. Þessi sýning kveikti ennþá meira í mér að fara að halda áfram með eitthvað af þeim verkefnum sem ég er með í gangi, svo að ég geti byrjað á nýjum.

Á laugardeginum fórum við fjölskyldan austur fyrir fjall, en í annað sinn var höggvið skarð í gamla vinnuhópinn af skrifstofu KÁ, þar sem ég var að vinna í öllum sumarfríum og milli skóla frá því ég var 16 ára til 24 ára. Þetta var góður hópur sem ég var að vinna með og hefur kjarninn haldið sambandi öðru hvoru í gegn um árin og hittumst við síðast næstum öll í október 2008. Í þetta sinn kvöddum við konu sem vann með mér allan tímann, hún hefði orðið 88 ára í október, og var svo lánsöm að halda heilsu alveg til 86 ár aldurs, en í fyrra fékk hún heilablóðfall sem sneri allri hennar tilveru á hvolf. Í maí vorum við búin að sjá á eftir skrifstofustjóranum okkar, einnig vegna heilablóðfalls. Það verða því viðbrigði þegar við hittumst næst þegar farið er að vanta í hópinn. Eftir jarðaförina var deginum eytt hjá foreldrum mínum í góðu yfirlæti eins og vanalega.

Svo er spennandi tími framundan hjá mér. Bóndinn fékk algjöran utanlandsfíling þegar hann sá tilboð á flugi frá Iceland express um daginn, og stakk upp á því að við myndum bregða undir okkur faraldsfætinum. Valið stóð á milli London og Berlínar, enda höfum við komið svo oft til Kaupmannahafnar og Varsjá heillaði hvorugt okkar, þannig að fyrir valinu varð Berlín, enda eini staðurinn sem við höfum ekki komið til áður. Við erum búin að gera lauslega áætlun um hvaða staði við viljum sjá, og ég held að aðal hættan sé sú að við komumst ekki yfir að skoða allt, verðum a.m.k. ekki í vandræðum með að finna okkur eitthvað að gera. Við erum líka búin að finna okkur íbúð sem er ágætlega staðsett, í útjaðri miðbæjarins, stutt í lestarstöð þar sem við erum í beinum lestarsamgöngum við flugvöllinn. Litla daman verður í góðum höndum hjá ömmum sínum og öfum, svo að hún missir lítið úr skólanum.

Í gærkvöldi skilaði ég væntanlega í síðasta sinn verkefni sem ég hef haft fyrir höndum síðustu ár, en það er að endurskoða reikninga Drengjakórs Reykjavíkur, enda er vinkona mín að skila af sér gjaldkerastöðunni þar sem söngfuglinn hennar er hættur í kórnum. Við tvíburahálfsysturnar áttum góða stund saman í gærkvöldi yfir tölunum og að sjálfsögðu stóðst reikningurinn skoðun.