12 september 2003

Annasamir dagar.

Gærdagurinn rann upp "bjartur og fagur" ef svo má að orði komast með roki og rigningu. Enda svo sem ekki við öðru að búast um miðjan september.

Eftir vinnu dreif ég mig heim og beið eftir mágkonu minni sem að var að byrja í reikningshaldi í háskólanum, en vantaði algjörlega nokkra undirstöðu í bókhaldi, enda var bókhald ekki kennd í menntaskólanum sem hún var í námi við. Við sátum vel við lærdóminn, og tíminn leið alveg óendanlega hratt, enda ekki á hverjum degi sem maður hefur jafn lærdómsfúsan nemanda sér við hlið......... enda stunda ég svo sem enga kennslu í þessum fræðum alla jafna.

Rúmlega níu var hringt bjöllunni, og fyrir utan stóð vinkona mín til að spyrja hvort ég væri ekki tilbúin í bíóið. Þá ákváðu námshestarnir að hætta lærdómnum og taka upp þráðinn síðar. Við vinkonurnar höfðum ákveðið að fara að sjá Magdalenes systers, í Háskólabíói, og á netinu kom fram að myndin ætti að byrja upp úr tíu. Þegar við mættum á staðinn, kom í ljós að myndin hafði verið sýnd klukkan átta og yrði ekki meira sýnd þetta kvöldið. Nú var úr vöndu að ráða. Þar sem við vorum nú komnar alla þessa leið þá nenntum við nú eiginlega ekki að snúa við og halda heim á leið aftur, svo að valið stóð á milli þess að fara á kaffihús eða athuga hvort við fyndum einhverja mynd í staðinn sem horfandi væri á. Stelpan í miðasölunni mælti með Sveet sixteen, og við ákváðum bara að slá til. Á miðan stóð að sýna ætti hana í stóra salnum, og þegar við komum þar inn var sviðið fullt af stólum og hljóðfærum, svo við vorum alveg vissar um að nú væri enn á ný verið að plata okkur, og við hefðum fengið miða á sinfoníutónleika. Myndin var hins vegar sýnd tuttugu mínútum síðar, en dróst eitthvað í viðbót út af töfum við að taka saman á sviðinu. Á endanum byrjaði samt myndin, og verð ég að segja að hún höfðaði engan veginn til mín, og illa farið með tímann. Það var langt liði á nótt þegar ég kom loksins heim.

10 september 2003

Núna um helgina stendur mikið til hjá okkur gömlu skóla(kór)félögum úr fjölbraut. Af því tilefni var neðangreindur póstur sendur til þeirra sem taka þátt í þessu móti. Merkilegt að enginn skuli vera búinn að afboða komu sína ennþá ......... (reyndar fengu þessir sömu leiðréttingarpóst síðar, svo að enginn skaði er skeður ennþá .......)


Komið þið sæl

Nú hefur undirbúningsnefndin fundað og gert áætlanir fyrir
hina árlegu grillveislu "Fjölbrautaskólakórsvinaklúbbsins" og
vonandi eruð þið búin að ganga frá pössun fyrir börnin, hengja
pressuð kjólfötin og galakjólana inn í skáp og safna extra
skammti af góðu skapi, því nú eru aðeins örfáir dagar í hittinginn
okkar margfræga.

Mæting: Þar sem veðurspáin fyrir laugardaginn er einstaklega
góð, innfætt íslenskt slagveður, þá hefur verið ákveðið að færa
grillveisluna út og verður hún klukkan 8:00 að Ný-Sjálenskum
tíma á íþróttasvæði Mosfellinga að Tungubakka

Matseðillinn:
Forréttur: Njólasúpa með njóla og hundasúrum úr garðinum,
skolað niður með mysu


Aðalréttur: Vegalömb sem því miður voru ekki nógu góð í spretthlaupi,
krydduð með vega-salti og smurolíu ásamt þriggja ára gömlum
gleði-kartöflum úr Þykkvabænum sem ekki náðu að selja sig fyrir
áramótin 2001. Þessu öllu skolað niður með appelsínudjús blönduðu
með vatni.


Kvöldsnarl: Saltaðir skósólar úr rauðakrossgámnum í sorpu, ásamt
ógeðsdrykk a la 70 mínútur.


Ef að ég man rétt (er reyndar með afskaplega slæmt minni) þá var talað
um það í fyrra að allur hópurinn myndi deila með sér kostnaðnum, og
hefur nefndin reynt að stilla kostnaðnum í hóf. Ofangreindur matseðill
mun því kosta um 15.500 á mann, sem er alveg gjafprís, en hægt er að
lækka kostnaðinn þar sem ferðaávísanir mastercard verða teknar gildar.

Hittumst nú hress um helgina !!!!



Svo er að sjá hvort maturinn verði ekki öllum að góðu og allir skemmti sér eins vel og frekast er unnt eftir allar kræsingarnar ...................

04 september 2003

Nú er farið að styttast í hina langþráðu Danmerkur- og Þýskalandsferð mína. Ferðaáætlunin er langt komin í það að verða tilbúin, svo að það eina sem er eftir er að pakka og reyna að muna eftir öllu sem taka á með, þar á meðal regngallann og regnhlífina sem við þurfum vonandi ekkert á að halda.

Ég er satt að segja búin að fá meira en nóg af skattframtölum þessa dagana og langar til að breyta um umhverfi. Síðustu tveir dagar hafa verið sérstaklega langir í vinnunni, svo að það skýrir nú eitthvað. Þó svo að ég hafi tekið eina og hálfa viku í frí í ágúst, þá greinilega nægði sá tími ekki til að hafa varanleg áhrif á pappírsþreytuna í mér. Og veðurfarið núna er ekki til að auka á ánægjuna, ekta íslenskt slagveður, nú kannast ég við mig.

En ég hef fleira til að hlakka til því að það eru bara átta dagar í að við gömlu kór- og skólafélagar úr Fsu hittumst ásamt mökum. Þetta er hópur sem var mikið saman hér á árum áður, en erum komin hvert í sína áttina, svo að suma úr hópnum hitti ég mjög sjaldan, og það oft með einhverra ára millibili. Nú erum við búin að sjá til þess að við hittumst ekki sjaldnar en einu sinni á ári, með því að hittast að hausti þegar óbyggðafólkið kemur til byggða. Við hittumst í fyrsta skiptið næstum öll í fyrra eftir margra ára hlé, grilluðum saman og skemmtum okkur langt fram eftir kvöldi, og var því heitið að þetta yrði endurtekið að ári. Og loksins er að koma að því.