23 ágúst 2010

24. ágúst, Fyrsti skóladagurinn / Atburðir helgarinnar

Í gær var merkilegur dagur í lífi litlu "nýfæddu" skottunnar minnar, fyrsti skóladagurinn. Það er ekki laust við að hún hafi verið spennt, tók fram skólatöskuna um morguninn og fór að setja í hana það litla skóladót sem hún er búin að fá, dolluyddarann og pennaveskið. Í skólanum hennar sjá kennararnir um innkaupin og rukka síðan foreldrana fyrir. Þetta fyrirkomulag er mjög þægilegt fyrir okkur foreldrana, en ég fann að skottan saknaði þess að geta ekki farið og valið skóladótið. Í morgun var svo fundur með kennaranum þar sem hún hitti hvern nemenda fyrir sér ásamt foreldrum. Okkur líst vel á kennarann, og höfum við frétt að börnin í bekknum sem hún kenndi í fyrra hafi orðið verulega svekkt að fá hana ekki áfram. Skottan er með annarri vinkonu sinni í bekk, þeirri sem hún er meira með, en hin vinkonan fór í hinn bekkinn. Í gær fórum við svo og keyptum skólaúlpu og skó fyrir haustið, svo að nú er ekkert að vanbúnaði fyrir þá stuttu að byrja.

Það er viðburðarrík helgi að baki. Á laugardaginn var menningarnótt, og létum við mæðgur hana ekki fram hjá okkur fara. Við byrjuðum á að labba niður laugaveginn en síðan var stefnan tekin á Grófarhús þar sem farin var fræðsluganga um hernám breta 1940. Var þetta hið fróðlegasta ferðalag, enda er þetta tími sem ég hef áhuga á að kynna mér betur, komst nýlega yfir fjöldann allan af bókum um síðari heimstyrjöldina sem ég hef áhuga á að lesa. Í göngunni var farið niður á höfn þar sem breska herdeildin nam land, síðan upp í Hafnarstræti, á Austurvöll í sundið við Thorvaldsen, upp að þýska ræðismannsbústaðnum, í grjótaþorpið og endað í Austurstræti 10 þar sem sett hefur verið upp sýning um veru breska og bandaríska hermanna á Íslandi upp úr 1940. Við og við var staldrað við og sagður fróðleikur um fyrstu daga bretanna á Íslandi og þær viðtökur sem þeir fengu hjá íslendingum og þjóðverjum sem bjuggu hér. Eftir það var staldrað við á Ingólfstorgi og horft á danshóp sem sýndi salsa dansa. Deginum var síðan eytt hingað og þangað um bæinn, fórum upp og niður Laugaveginn og Skólavörðustíg, fórum á Sálmafoss í Hallgrímskirkju, en þar voru hinir og þessir erlendir kórar sem komu fram, ég heyrði m.a. í virkilega flottum kórum frá Eistlandi og Danmörku, rammfölskum sænskum kór, og aðeins í nokkuð góðum kór frá Litháen. Til að hvíla okkur aðeins frá kórunum skruppum við í Listasafn Einars Jónssonar og urðum við mjög hrifnar af því. Höggmyndirnar hans eru alveg einstakar, falleg smáatriði sem koma fram og húsið er líka skemmtilega sérstakt. Stigarnir milli hæða eru reyndar ekki til að hrópa húrra yfir, en hafa sinn sjarma líka. Íbúðin á loftinu gerir safnið svo ennþá skemmtilegra, þar sem allt hefur verið vel varðveitt, og skemmtilegt hvernig allt veggpláss milli glugga er nýtt fyrir bókaskápa. Við enduðum kvöldið á því sama og við gerðum í fyrra, að hlusta á Kristjönu Stefáns syngja djass á vinnustofu Péturs Gauts. Þegar leið á kvöldið vorum við búnar að fá nóg af menningu í bili og héldum heim á leið, nenntum engan veginn að bíða eftir flugeldasýningunni.

Húsbóndinn á heimilinu var upptekinn á laugardeginum við að hjálpa tengdapabba sínum við að skipta um þak á húsinu þeirra. Á sunnudeginum var haldið áfram með þá vinnu, og við mægður skelltum okkur með. Skottan er alltaf jafn spennt fyrir að fara austur fyrir fjall til ömmu sinnar og afa. Pabbi var búinn að taka niður helling af kössum af háaloftinu, og þar leyndust ýmsar gersemar frá mér, sem ég var löngu búin að gleyma að ég ætti til. Meðal annars komu í ljós allar bækurnar sem ég átti sem barn og unglingur, og það er greinilegt að skólastelpan á heimilinu kemur til með að hafa úr nægu lestrarefni að velja í framtíðinni.

19 ágúst 2010

Hinn ljúfi ágústmánuður

Áður en við er litið er farið að síga á seinnihluta ágústmánaðar en enn einn sumardagurinn brosir við okkur. Það er ljúft að hafa varla farið í yfirhöfn yfir sumarið, og núna í miðjum ágúst virðist ekkert lát á blíðunni. Þetta líkar mér.

Um síðustu helgi skruppum við fjölskyldan að Hvaleyrarvatni og fengum okkur göngutúr í kring um vatnið. Þetta er óskaplega fallegt svæði og svo stutt frá bænum. Vatnsborð vatnsins er frekar lágt, og var óneitanlega skrítið að sjá bryggjuendann í eins til tveggja metra fjarlægð frá vatnsjaðrinum. Veðrið var líka nokkuð gott, sól en dálítill vindur en ágætlega hlýtt.

Um helgina náði ég að klára fyrsta stóra bútasaumsteppið mitt, sem var mánaðarverkefni í Virku 2008, ,,lodge and the lakeside,, frá Thimbleberries. Ekki seinna vænna að fara að klára gripinn. Ég lauk reyndar við framhliðina á því um verslunarmannahelgina í fyrra, keypti efnið í bakið út í Orlando í janúar, og gerði heiðarlega tilraun til að þræða það sjálf. En þar sem það er um 7 fermetrar á stærð, gafst ég fljótlega upp á því, enda þurfti ég að flytja öll húsgögn úr borðstofunni í hvert sinn, til að ég gæti þrætt það flatt. Það kom svo í ljós þegar ég fór með það í vattstungu að konan sem stingur teppin vill fá það óþrætt. Næsta verkefni er að klára dúkinn frá saumahelginni á Hótel Hlíð síðasta haust. Ég þarf að spretta honum aðeins upp og lagfæra áður en ég get saumað hann saman aftur. Það er betra að vera búinn með hann fyrir næstu saumahelgi, en ég fer á saumahelgi hjá Virku helgina 6. – 8. október á Hótel Örk. Það verður án efa mjög skemmtileg helgi og gaman að sjá hvaða verkefni við fáum að spreyta okkur á núna. Við fáum víst ekkert að vita fyrr en við mætum á staðinn.

Í gær nýtti ég blíðuna til ljúka við að tína ber út í garði (full klædd samt að sjálfsögðu). Rifsberin eru svo rauð og falleg, helst til rauð ef eitthvað er. Ég náði að klára að tína allt sem ég ætla að nýta af trjánum og er hann frekar litlaus greyið eftir meðferðina hjá mér. Það voru nokkrir geitungar sem gerðu heiðarlega tilraun til að flæma mig í burtu en með litlum árangri. Og í þetta sinn lét ég þá ekki plata mig í neitt knús eða kjass, er ekki búin að gleyma stungunni sem ég fékk við faðmlög við geitung í fyrra. Undir lok tínslunnar var farið að rigna en það var bara hressandi, enda hitinn í kringum 15 – 16 stig. Í gærkvöldi var svo öllu skellt í pott og gerð saft fyrir tilvonandi hlaupgerð. Það verður vonandi orðið búsældarlegt í búrskápnum áður en langt um líður, því að í frystinum er rabbabari sem eftir er að sulta úr. Þó að það sé erfitt að sjá á eftir sumrinu, þá fylgir ákveðin stemming haustverkunum, eins og sultun og sláturgerð.

Í kvöld hittumst við vinahópurinn í Sæmundarseli, sem er útikennslusvæði frá Sæmundarskóla í Grafarholti, við Reynisvatn, til að grilla saman, eitthvað sem við höfum gert einu sinni á sumri í nokkur àr. Það gekk ekki þrautalaust fyrir okkur að finna staðinn en gekk fyrir rest eftir að við fundum nýjar slóðir sem þarfnast nánari skoðunar síðar. Þetta svæði er mjög sniðugt, fallegur trjàlundur með gömlum og háum trjám, og flott leiksvæði fyrir börn, trjáhús, brýr með trjábolum, rólur og þrautabraut, allt gert úr efniviði úr umhverfinu, trjábolum og torfi. Við vorum með tvenn gasgrill með okkur en þarna er ekki sérstök grillaðstaða. Setuaðstaðan var líka fremur óhentug og flaug ýmislegt um koll ef óvarlega var farið, þar á meðal fékk ég góða flugferð, og sè fram á glæsilegan marblett á öðru lærinu. Sólin og blíðan lék við okkur, þó að sólin næði reyndar ekki inn á aðalsvæðið þar sem við vorum vegna trjánna, en þá var stutt niður á flöt við vatnið þar sem við gàtum sleikt sólina.

03 ágúst 2010

9. ágúst 2010

Sumarfríið á enda runnið í bili a.m.k.

Allt tekur enda, og eins er það með þetta góða sumarfrí sem ég er búin að eiga núna undanfarinn mánuð. Þetta var mjög notalegt og gott frí, og þó að það sé gott að vera í fríi þá er líka mjög gott að komast í vinnuna aftur, í gömlu rútínuna og hitta vinnufélagana á ný.

Föstudaginn 2. júlí var síðasti vinnudagur fyrir sumarfrí. Við brunuðum fljótlega í bústaðinn þar sem við eyddum helginni. Á laugardeginum skruppum við mæðgur á ættarmót í Skorradalnum í sumarbústað frænku minnar og var virkilega gaman að hitta ættingja mína úr föðurættinni, en þeirri ætt hef ég kynnst minna en úr móðurættinni. Ég fór á ættarmót með þeim í fyrra líka og finn að ég er strax farin að kynnast fólkinu betur.


Fyrstu vikunni af sumarfríinu var síðan eytt í bænum, enda nóg að gera hér við heimilisverk og ýmislegt annað dundur með skottunni, sem náði þeim merka áfanga að hætta sem leikskólastelpa og verða tilvonandi skólastelpa. Á föstudeginum var bróðir tengdapabba jarðaður, en hann varð bráðkvaddur vikuna áður. Útförin var mjög falleg og veðrið gott. Síðan var bíllinn fylltur af útilegudóti, gamla tjaldinu sem ég keypti mér þegar ég var rúmlega tvítug, og ýmsum öðrum viðlegubúnaði, því nú skyldi skottan kynnast almennilegri útilegu. Við mæðgurnar vorum síðan í bústaðnum meira og minna næstu 10 daga á eftir. Við fengum góða heimsókn frá góðri vinkonu, og fórum við saman í rúnt um dalina (Fellsströnd og Skarðsströnd) í alveg frábæru veðri. Það var nú svo sem ekki hægt að kvarta yfir veðrinu sem ég hef fengið í þessu sumarfríi, hver dagurinn hefur verið öðrum betri. En einhver bið verður á útilegunni, tjaldið fór reyndar upp við bústaðinn, og stóð þar í þrjá daga áður en ég pakkaði því niður aftur. Vonandi verður framtakssemin hjá mér meiri á næsta ári, nema ég láti verða af því að fara í helgarútilegu áður en dótið verður tekið úr bílnum aftur.


Vikuna fyrir verslunarmannahelgina var litlu dömunni skutlað austur fyrir fjall til ömmu og afa og ég fór til vinnu. Taldi mig nú geta klárað það sem eftir var á einum og hálfum til tveimur dögum, en svo fór að þetta urðu þrír dagar og eitt kvöld sem tók mig að vinna upp það sem eftir var fyrir mánaðarmót. Allt gekk þetta samt að lokum, og á föstudeginum var stefnan tekin í Grímsnesið til vinafólks okkar, en þau buðu okkur og sameiginlegum vini í grillveislu. Við áttum með þeim góða dag- og kvöldstund og gott betur en það, vorum ekki komin heim fyrr en um miðja nótt, enda mörg þjóðmál sem þurfti að kryfja auk þess sem heiti potturinn var prófaður og tekinn göngutúr um næsta nágrenni.


Á laugardeginum var svo stefnan tekin til Akureyrar þar sem foreldrar mínir voru með íbúð á leigu. Vorum við þar í góðu yfirlæti alla helgina, á sunnudeginum var farið í Ásbyrgi, þar sem við fengum okkur göngutúr að tjörninni og nutum þessa fallega umhverfis, síðan var sest á bekk og nestinu gerð góð skil. Eftir það ókum við hálfgerða troðninga en mjög fallega leið, að Vesturdal, og að sjálfsögðu fengum við okkur göngutúr að hljóðaklettum og gaf sú stutta okkur eldra fólkinu ekkert eftir í göngunni. Á heimleiðinni fórum við um Hólssand og stoppað við að Dettifossi og síðan ókum við meðfram Mývatni. Ég hef ekki komið í Ásbyrgi og Vesturdal síðan ég var 6 - 7 ára, og man ekkert eftir því. Og ég held að ég hafi aldrei komið að Dettifossi áður Þetta var því jafn nýtt fyrir mér og bóndanum sem hafði aldrei komið á þessar slóðir áður. Veðrið var ekki til að kvarta yfir. Núna er draumurinn hjá mér að fara þangað aftur og ganga frá Vesturdal meðfram Jökulsánni að Ásbyrgi. Hvort eitthvað verður af því verður hins vegar bara að koma í ljós.


Á mánudeginum fórum við með litlu dömuna í sund, og var hún hálf smeyk við sundlaugina í byrjun. Hún var samt alveg æst í að fara í stóru rennibrautina - þar til hún var komin á toppinn, þá gugnaði sú stutta á því, og við fórum niður stigann til baka. Hún fann hins vegar aðra öllu meinlausari rennibraut, og fór salíbunu niður og fannst mjög gaman. Hún vildi síðan fara aðra ferð, en eitthvað var sú ferð ógnvænlegri en hin því hræðslusvipurinn á barninu var mikill þegar neðar dró. Hún sagði að þetta hefði verið mjög gaman, en hún vildi samt ekki fara aftur. Við gerðum aðra tilraun til að venja hana við sundlaugina og eftir dálitla vinnu með henni og fortölur var hún farin að busla sjálf og synda hundasund endanna á milli og vildi engan veginn hætta fyrr en hún var orðin frekar þreytt. Eftir sundferðina pökkuðum við farangrinum okkar saman og héldum suður á bóginn, barnlaus að vísu. Stoppuðum eina nótt í kotinu okkar á vesturlandinu, og héldum í bæinn um miðjan dag á þriðjudag.


Núna er allt komið á fullan gang, sú stutta komin á leikjanámskeið fram að skóla og ég komin á fullt í vinnuna aftur.