25 ágúst 2003

Þvílík tilfinning að hafa ennþá sumar þrátt fyrir að komið sé fram í endaðann ágúst. Ég vonast til þess að þetta endist sem lengst þó að ég viti það svo sem að mér verði ekki að ósk minni frekar en fyrri daginn.

Eftir vinnu á föstudaginn tókum við okkur til, settum sólstólana út á verönd og flatmöguðum þar eins og skötur fram eftir degi. Bóndinn fékk þá frábæru hugmynd að taka lambalæri úr frystinum og grilla það, reyndar hálf frosið, en hvað um það, við gerðum þá bara ráð fyrir lengri grillunartíma. Það þurfti reyndar að byrja á því að fylla á gaskútinn því hann var tómur, en það voru bara byrjunarörðugleikar. Þegar kjötið var komið á grillið, fengum við þá hugdettu að athuga hvort að tengdaforeldrarnir vildu ekki bara koma yfir og borða með okkur, og var tengdamamma ekki sein á sér að stinga fiskinum aftur inn í ísskáp og þiggja boðið. Eftir matinn sátum við svo yfir kaffi með póstkort og ferðabæklinga enda bara mánuður í það að við förum út.

Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur, en dálítið rigningarlegur. Um klukkan níu renndu tengdaforeldrar mínir í hlaðið og saman héldum við með nesti og gamla skó og hlý föt vestur á leið. Karlpeningurinn fór í að mæla fyrir súlum á lóðinni og saga niður rör, á meðan að við konurnar fórum í berjatýnslu, enda af nógu að taka á svæðinu. Ég náði að fylla tvö góð box, eða um tvö og hálft kíló (reyndar rúmlega það, því við borðuðum smávegis af berjum með rjóma í gær), allt á okkar lóð, og er eitthvað eftir ennþá. Ég ætla nú samt að láta þetta nægja, enda komin með sæmilegasta magn af ýmsum tegundum af sultu. Veðrið hélst alveg sæmilega gott allan daginn, það komu nokkrir dropar um miðjan daginn og síðan ekki söguna meir, fyrr en við vorum að leggja í hann heim um kvöldmatarleytið. Kvöldinu heima eyddum við hjónin síðan í rólegheitum fyrir framan arininn.

Sunnudagurinn var svona ekta afslöppunardagur. Við lágum í rúminu fram að formúlu, og á meðan að bóndinn horfði á formúluna, arkaði ég út í búð og bakarí til að kaupa inn fyrir hádegismatinn. Það er ekki oft sem við fáum okkur svona morgun-hádegismat eins og við gerum þegar við erum á ferðalagi erlendis, brauðbollur, gróft brauð með alls konar áleggi, kaffi og appelsínudjús, en það var bara svo freistandi að komast aðeins í morgunverðarstemmingu fyrir utanlandsferðina. Eftir matinn settumst við svo niður með ferðabæklinga og sorteruðum út þá bæklinga sem við sáum fram á að við myndum ekki nýta, og athuguðum hvaða staði væri sniðugt að skoða á leiðinni milli Kaupmannahafnar og Þýskalands, og eins þegar við kæmum til Kaupmannahafnar aftur. Við áttuðum okkur reyndar á því að við þyrftum aðeins að gera breytingu á áætluninni hjá okkur miðað við tímann sem tekur að keyra á milli, en að auki komumst við að því að síðasti dagurinn sem tívolíið í Kaupmannahöfn er opið, er dagurinn sem við komum út. Það er líka betra að ákveða það tímanlega hvað við ætlum að taka með okkur út, og setja niður á blað minnispunkta, svo að ekkert gleymist nú heima.

Og áður en við vitum af er kominn mánudagur og ný vinnuvika hafin. Eftir vinnu ætlum við hjónakornin að halda aftur í sveitasæluna í Borgarfirðinum og halda áfram með að undirbúa súlurnar undir sumarbústaðinn okkar.

18 ágúst 2003

Jæja, sælu-sumarfrísdagarnir á enda í bili, og við tekinn hinn hversdagslegi raunveruleiki. (mætti halda að ég hafi endanlega ruglast í fríinu mínu). Þetta sumarfrí var nauðsynlegt þó svo að það hefði mátt nýta á skynsamari hátt, og hálf skrítin hugsun að fyrir utan tvo til þrjá daga hafi ég ekki gert neitt af viti þessa eina og hálfu viku sem ég var í fríi. Eftir stendur að ég fór tvo daga á Selfoss, og einn daginn nýtti ég meðal annars í að tína ribsber og gera sultu úr þeim. Hvað varð af hinum dögunum átta ég mig nú bara ekki á. En svona eiga frí víst að vera, enda er ég endurnærð eftir þessa daga og tilbúin að ráðast á bunkana í vinnunni.