26 október 2010

Vetur konungur kominn í hlaðið

Áður en við er litið er kominn vetur með tilheyrandi kulda og tekur smá tíma að aðlaga sig að þessari breytingu.

Í október mánuði hefur verið ýmislegt brallað. Helgina 8. - 10. október fór ég á saumahelgi á Hótel Örk og var þetta mjög skemmtileg helgi, þar sem um 60 konur fengust við saumaskap og spjall. Ekki skemmdi heldur fyrir að gista á svona góðu hóteli og fá alla þjónustu án þess að hafa nokkuð fyrir því einu sinni, og geta bara setið og saumað og saumað, og saumað meira. Það voru tvö verkefni í boði, snnars vegar Pacific Rim og hins vegar Outback. Ég var hrifnari af Pacific Rim verkefninu, þó að mér litist nú ekki meira en svo á að fara að vinna svona verkefni sem ég hélt að væri mjög flókið, en það er léttara en það lítur út fyrir að vera, og mjög gaman að fást við. Ég komst vel af stað með verkefnið, en á eftir hellings saumaskap ennþá.

Ég er alveg dottin í bútasauminn þessa dagana og er komin vel á veg með að klára gamlar syndir sem ýmist þurfti að lagfæra eða að klára, en ég ákvað að klára þetta gamla áður en ég tæki við að ljúka við síðasta verkefni. Það lítur líka út fyrir að mér sé að takast að smita svilkonu mína með bútapestinni líka, og þá erum við orðnar þrjár í fjölskyldunni sem höfum áhuga á bútasaumi.

Fyrstu helgina í október gerðumst við tvíburahálfsysturnar hagsýnar húsmæður og tókum slátur. Þetta hefur verið góð hefð hjá okkur síðustu árin og hefur gengið vel. Í þetta sinn tók vinnan þó miklu lengri tíma en áður, þar sem að nú fylgdu með alvöru vambir sem þurfti að sníða og sauma, og var það eitthvað sem við vorum ekkert sérstaklega klárar í. Allt gekk þó að lokum og vorum við búnar að öllu um tvö um nóttina.

Saumaklúbburinn "þrír fiskar á þurru landi" er kominn á fullt í jólakortagerð, eða a.m.k. 66,67% af klúbbnum, og verður gott þegar öll jólakortin verða tilbúin og hægt að skrifa á þau. Á hverju ári ætla ég að vera tímanlega í þessu, en það endar ávallt með því að jólakortaskrifin eru gerð á síðustu stundu korter fyrir jól. Það er fróðlegt að sjá hvort það hefst í þetta skipti.