19 febrúar 2004

Það er ekkert smá magn af vatni sem er til þarna uppi. Það rignir og rignir eins og það hafi ekki rignt í marga mánuði. Ég er fegin því að þessi úrkoma er a.m.k. ekki í föstu formi, annars værum við sjálfsagt komin á kaf í snjó.

Ha? nei, ég datt ekki á hausinn.

Nei, ég er ekki full heldur.

Nei, ég nota ekki eiturlyf.

Ég ákvað bara að það væri kominn tími á að bæta aðeins í dagbókina mína.

Þó að ég hafi verið frekar ónýt við að skrifa, þá er ekki þar með sagt að það sé ekkert að gerast hjá mér. Ég hef gert ýmislegt skemmtilegt á þessum tíma, og það er ýmislegt skemmtilegt fram undan sem ég get vonandi sett inn áður en langt um líður, og það er endalaust að bætast við dagskránna, suma dagana lítur út fyrir að ég yrði að vera á tveimur stöðum á sama tíma.

Síðustu daga erum við búin að vera á fullu að taka húsið okkar í gegn. Í rúmt ár höfum við bæði hjónin unnið í Hafnarfirðinum, og því teljum við tíma til kominn að fara að færa okkur aðeins um set og kíkja á hvað er í boði þar. Erlendis þætti það nú reyndar ekki mikið að keyra yfir 20 km. leið til vinnu hvora leið, en okkur þykir það orðið nóg, sérstaklega þegar annað er að vinna styttra en hitt. Tíminn leiðir hins vegar í ljós hvað kemur út úr þessum vangaveltum öllum.

Þessa dagana er ég líka á alveg einstaklega spennandi námskeiði, í Dalecarnegie, og er það námskeið sem ég bind miklar vonir við. Þetta er 12 vikna námskeið sem verður alveg fram á vorið, og sjálfsagt heilmikil vinna á bakvið þetta allt saman, en ég er viss um að þetta á eftir að gera mér gott.