24 mars 2020

Þetta er skelfilegur faraldur, Haraldur

Það er vel við hæfi að skrifa nýja færslu á þeim tíma sem ég ætti að vera ásamt bóndanum stödd í Berlín en er heimavið sem betur fer miðað við aðstæður, en síðasta færsla á undan var einmitt um síðustu Berlínarferð, 2010. Við ætluðum sem sagt að fljúga til Berlínar á föstudaginn og koma heim á morgun, en frestuðum ferðinni fram í ágúst. Það þýðir að vísu að öllum líkindum hitti ég ekki Sigrúnu vinkonu mína og grunnskólasystur eins og planað var, og ég hlakkaði til.

Mig langar til að skrifa aðeins um þessa tíma við erum að upplifa í dag í færslu sem ég mun skoða eftir nokkur ár til að minnast þessa tíma, þessar aðstæður sem við hefðum ekki getað ímyndað okkur fyrir örfáum mánuðum að við myndum standa frammi fyrir og að hefðu jafn lamandi áhrif á samfélagið og raun ber vitni.


Aðstæðurnar eins og þær eru í dag

Þessir ,,fordæmalausu" tímar sem við upplifum núna minnir okkur á hversu það líf sem við teljum vera í svo föstum skorðum verður í rauninni veikbyggt þegar til kastanna kemur. Að ósýnileg lífvera, eða veira sem sprettur upp á matvörumarkaði í Kína (eða svo er okkur sagt) um miðjan nóvember á síðasta ári, geti verið svo öflug að hún leggur heilu samfélögin á hliðina og hafa nú þegar um 335 þúsund manns veikst og hátt í 15 þúsund manns látist út um allan heim. Veiran sem kennd er við bjór (sem er reyndar smá grín) Corona, eða Covid19, skilur eftir sig lömuð þjóðfélög nánast alls staðar. Það er skelfilegt að sjá þessar staðreyndir svona lifandi á þessu korti (linkur opnast í nýjum flipa) sem er uppfært daglega. Fyrsta tilfellið hér á landi greindist í lok febrúar, en í dag eru um 588 manns sem hafa veikst hér og 12 sem liggja inni á spítala, en sem betur hafa ekki borist fréttir af því að neinn hafi látist, og ég vona svo innilega að svo haldist áfram.

Staðan hér á landi er sú að samkomubann var sett á þann 16. mars, sem fól meðal annars í sér að allir framhalds- og háskólar eru lokaðir, kennsla fer fram eftir því sem mögulegt er í gegn um fjarkennslu, og námsmat fer fram með nýjum hætti. Grunnskólar eru með skertri starfssemi, nemendum er kennt í minni hópum og kennslutíminn er takmarkaður. Unglingurinn á mínu heimili er sem dæmi einungis eina klukkustund á dag í skólanum, en meiri áhersla er lögð á heimanám í staðinn. Þetta er frekar viðkvæmur tími þar sem næsta haust tekur framhaldsskólinn við og því hættara við að undirbúningurinn fyrir hann verði erfiðari. Í upphafi var einnig lagt bann við samkomum þar sem kæmu saman fleiri en 100 manns, og gæta varð að því að ekki væri minna en 2ja metra bil milli fólks. Í framhaldinu hafa tónleikar, kirkjuathafnir og aðrar fjölmennar samkomur lagst meira og minna af. Um miðnætti í kvöld herðast reglurnar enn meira, þá miðast samkomubannið við 20 manns, rekstur sem byggist á nálægð við viðskiptavini er bannaður, svo sem nudd, hárgreiðslu- og snyrtistofur, tannlækningar, nema í bráðatilvikum. Sundstöðum og líkamsræktarstöðvum hefur verið lokað, og verslunum nema apótekum og matvörubúðum er einungis hemilt að vera með alls 20 manns inni í einu og hafa einhverjar verslanir brugðið á það ráð að loka á meðan á banninu stendur og leggja áherslu á netverslun í staðinn. Latexhanskar, grímur og handspritt er orðinn staðalbúnaður á hverju heimili, og að einhver fari inn í banka með grímu og hanska þykir bara ekkert athugavert lengur.

Þeir sem greinast með veiruna eða veikjast af henni eru settir í einangrun en aðrir sem hafa umgengist þá sem greinast eru settir í sótthví og voru um 6.800 manns í skráðri sótthví, en margfalt fleiri eru í sjálfskipaðri sótthví, bæði til að vernda eigin heilsu og forðast að bera smit á milli fólks.

Flugferðir milli landa hafa meira og minna lagst af, ferðaþjónustan er hrunin í bili, mörgum hótelum hefur verið lokað, og almennt eru fáir á ferli. Öll íþróttastarfsemi hefur meira og minna lagst af, öll félagastarfssemi og jafnvel jarðafarir eru meira og minna í kyrrþey, þeim frestað eða streymt á netinu. Nýjar venjur hafa skapast, nú skiptir öllu máli að þvo sér vel um hendur eins oft og kostur er, og spritta sig vel á eftir (þá er ekki átt við að farið sé á kogarafyllerí). Allar þessar aðgerðir miða að því að hefta útbreiðslu veirunnar og vernda viðkvæmustu hópana fyrir því að veikjast. Þegar mikið er í húfi, þá eru flestir tilbúnir að leggja ýmislegt á sig til að það markmið náist.

Búið er að fresta eða fella niður ýmsa fasta stórviðburði eins og heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem var frestað um eitt ár, Eurovision hefur verið aflýst, loksins þegar við Íslendingar ætluðum virkilega að vinna keppnina, og búast má við að Ólympíuleikunum verði sömuleiðis frestað, sérstaklega ef að keppnisþjóðirnar fara að draga sig út úr þeim hver af annarri.


Áhrif faraldursins á mitt líf

Þegar fréttir bárust í upphafi af áhrifum Covid19 í Kína þá virkaði þetta á mig eins og hver önnur hamfarafrétt í fjarlægu landi. Ég fann til með fólkinu þarna en ég gerði mér samt engan vegin grein fyrir því hversu mikill skaðvaldur þetta er. Það var eiginlega ekki fyrr en fréttir bárust af því að veiran hefði komið upp á Ítalíu og að Ítalir væru farnir að veikjast í stórum stíl. Þegar skíðaþyrstir íslendingar fóru svo að greinast og voru settir í sótthví þá var alvaran orðin greinileg. Ég fylgdist með öllum blaðamannafundum sem haldnir voru, hef tekið alvarlega þeim tilmælum sem beint er til almennings, er dugleg að þvo mér og spritta og reyni að koma sem minnst við helstu snertifleti með höndunum. 

Í vinnunni hjá mér var strax í upphafi tekið vel á málunum. Neyðarráð var virkjað, birt neyðaráætlun þar sem farið var vel yfir hvaða viðbrögð yrðu við áhættustigum Almannavarna. Þegar ljóst varð að háskólanum yrði lokað voru gerðar ráðstafanir til að lágmarka áhættuna á smiti milli starfsmanna svo að hægt sé að halda innra starfi skólans gangandi. Starfsmönnum er skipt í hópa sem vinna viku í einu, vinnustaðurinn er þrifinn rækilega og sótthreinsaður um helgar áður en næsti hópur tekur við. Í minni deild erum við fimm á tveimur starfsstöðvum, og á minni starfsstöð, þar sem við erum þrjú,  má ekkert okkar vinna í húsinu á sama tíma. Siðustu viku vann ég á starfsstöðinni en ég hélt mig mest uppi á skrifstofu og hafði lítil samskipti við aðra vinnufélaga í húsinu. Næstu tvær vikur verð ég með verkefni heima og verð ég að viðurkenna að þetta óvenjulega fyrirkomulag skapar visst öryggi, Það er tilbreyting að vera ekki á flakki í og úr vinnu, þó að í síðustu viku hafi það bara tekið mig um 15 - 20 mínútur að keyra hvora leið á tíma sem venjulega er háannatími þar sem tekur mig 30 - 45 mínúur að komast milli heimilis og vinnustaðar.

Þetta verður sem sagt vinnustaðan mín næstu tvær vikurnar, ég upplifi dálítið eins og ég sé sest á skólabekkinn aftur, en við þetta borð eyddi ég ansi mörgum klukkustundum á meðan á náminu stóð. 



Í síðustu viku var afmælið mitt og ég var búin að gera ráð fyrir að geta aflýst því eins og Berlínarferðinni, og að ég yrði bara 51 árs í ár í viðbót, en afmælisdagurinn var á sínum stað þrátt fyrir coronaveiruna og varð betri en ég þorði að vona, 

Á síðustu vikum hef ég fylgst með öllum fréttum, öllum fjölmiðlafundum og drukkið í mig upplýsingum sem hægt er að ná í, ég vildi vita sem mest, svo ég gæti bæði gert allt til að forða okkur fjölskyldunni frá smiti, og eins að geta þekkt einkennin ef eitthvert okkar veikist. Það virðist hins vegar ekki vera svo auðvelt um vik það sem einkennin virðast alls konar. Á laugardaginn upplifði ég í fyrsta sinn á þessu tímabili algjört vonleysi og ótti við að ég myndi ekki ráða við aðstæður ef allir á heimilinum veiktust og við það bættist að ég var allt í einu búin að fá yfir mig nóg af þessum skelfilegu fréttum, bæði hversu margir íslendingar væru að greinast og ekki síst þær hryllilegu fréttir sem bárust frá ástandinu á Ítaliu. Fjölskyldan fékk að kenna á mínum verstu hliðum, ég var bæði uppstökk og skapill, nokkuð sem gerist sem betur fer mjög sjaldan, og ég endaði á að koma mér í sjálfskipað fjölmiðlabann og einangrun fram á sunnudag, fór snemma að sofa og vaknaði endurnærð og tilbúin að takast á við tilveruna á nýjan leik. 

Það hefur verið markmið mitt að vera sem minnst á ferli að óþörfu á meðan þetta gengur yfir, ég veit aldrei hvenær ég gæti verið smitberi og vil taka sem minnsta áhættu, sérstaklega þegar ég geri mér betur grein fyrir hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft í för með sér fyrir þá sem veikjast alvarlega. Í dag tók ég mig til og verslaði inn fyrir alveg næstu 3 - 4 vikur, svo að við ættum ekki að þurfa að fara meira út en nauðsynlegt er. Öll félagsstarfssemi sem ég hef tekið þátt í í gegn um árin liggur nú í dvala, saumaklúbbar hafa verið slegnir á frest, við kiwanissystur vorum komnar í frí nokkru áður en samkomubannið skall á og verðum í fríi þar til um hægist, Mér finnst flestir vera að taka mjög skynsamlega á málunum og ég vonast til að heiminum takist að komast fljótt og vel í gegn um þennan faraldur, að atvinnulífið komist á skrið sem fyrst og við komum út úr þessum hamförum reynslunni ríkari og hæfari til að takast á við hvað sem er.   






0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim