14 september 2010

September hálfnaður

Þá er september mánuður brátt hálfnaður og ýmislegt sem hefur á daga drifið eins og venjulega.

Litla skólastelpan er hæstánægð í skólanum, reyndar eru einhverjir hrekkjalómar sem eru að gera henni lífið leitt, en mér heyrist kennarinn hennar ætli að taka á þeim málum. Hún er byrjuð að lesa pínulítið, tvö til þrjú atkvæði í einu, og hefur mikinn áhuga á að læra meira. Einnig er hún byrjuð að skrifa stafina á fullu, og dundar sér við það á daginn eftir skóla.

Síðasta helgi var annasöm. Á föstudaginn fór ég á sýninguna "bút fyrir bút" í Perlunni, en þar heldur íslenska bútasaumsfélagið sýningu á flottum bútasaumsverkum í tilefni 10 ára afmæli félagsins. Þessi sýning ollin engum vonbrigðum, fullt af mjög fallegum verkefnum, og ómældar vinnustundir sem liggja að baki þessum verkefnum. Það var mikill fjöldi fólks sem var á sýningunni og þurfti stundum að sæta lagi til að komast að þeim teppum sem ég vildi skoða nánar, en allt gekk þetta á endanum. Þessi sýning kveikti ennþá meira í mér að fara að halda áfram með eitthvað af þeim verkefnum sem ég er með í gangi, svo að ég geti byrjað á nýjum.

Á laugardeginum fórum við fjölskyldan austur fyrir fjall, en í annað sinn var höggvið skarð í gamla vinnuhópinn af skrifstofu KÁ, þar sem ég var að vinna í öllum sumarfríum og milli skóla frá því ég var 16 ára til 24 ára. Þetta var góður hópur sem ég var að vinna með og hefur kjarninn haldið sambandi öðru hvoru í gegn um árin og hittumst við síðast næstum öll í október 2008. Í þetta sinn kvöddum við konu sem vann með mér allan tímann, hún hefði orðið 88 ára í október, og var svo lánsöm að halda heilsu alveg til 86 ár aldurs, en í fyrra fékk hún heilablóðfall sem sneri allri hennar tilveru á hvolf. Í maí vorum við búin að sjá á eftir skrifstofustjóranum okkar, einnig vegna heilablóðfalls. Það verða því viðbrigði þegar við hittumst næst þegar farið er að vanta í hópinn. Eftir jarðaförina var deginum eytt hjá foreldrum mínum í góðu yfirlæti eins og vanalega.

Svo er spennandi tími framundan hjá mér. Bóndinn fékk algjöran utanlandsfíling þegar hann sá tilboð á flugi frá Iceland express um daginn, og stakk upp á því að við myndum bregða undir okkur faraldsfætinum. Valið stóð á milli London og Berlínar, enda höfum við komið svo oft til Kaupmannahafnar og Varsjá heillaði hvorugt okkar, þannig að fyrir valinu varð Berlín, enda eini staðurinn sem við höfum ekki komið til áður. Við erum búin að gera lauslega áætlun um hvaða staði við viljum sjá, og ég held að aðal hættan sé sú að við komumst ekki yfir að skoða allt, verðum a.m.k. ekki í vandræðum með að finna okkur eitthvað að gera. Við erum líka búin að finna okkur íbúð sem er ágætlega staðsett, í útjaðri miðbæjarins, stutt í lestarstöð þar sem við erum í beinum lestarsamgöngum við flugvöllinn. Litla daman verður í góðum höndum hjá ömmum sínum og öfum, svo að hún missir lítið úr skólanum.

Í gærkvöldi skilaði ég væntanlega í síðasta sinn verkefni sem ég hef haft fyrir höndum síðustu ár, en það er að endurskoða reikninga Drengjakórs Reykjavíkur, enda er vinkona mín að skila af sér gjaldkerastöðunni þar sem söngfuglinn hennar er hættur í kórnum. Við tvíburahálfsysturnar áttum góða stund saman í gærkvöldi yfir tölunum og að sjálfsögðu stóðst reikningurinn skoðun.

1 Ummæli:

Anonymous Anna sagði...

..."seinheppna ég"! Tilbúin með reikninga góðum tíma fyrir auglýstan aðalfund búin að láta vita að í stað þess að þyggja "hættugjöf" myndi ég sjá um e-ð með kaffinu. Vann mér í haginn sl. mánudagskvöld og setti í tvær brauðtertur. Ætlaði svo að smyrja flatkökur á þriðjudag og jafnvel kaupa smá kex á leið á fundinn á miðvikudag. Daginn fyrir auglýstan aðalfund komu boð út um að það yrði að fresta honum vegna veikinda og anna og það um hálfan mánuð.... Það verður nú farið að slá í brauðterturnar þá... (reyndar fór ég með aðra í vinnuna í gær og bauð upp á hina hér heima í kvöld ;-)) Vona að þið hjónakorn hafi náð að skoða og njóta Berlín eins og kostur er. kv. Þín tvíburahálfsystir

23. september 2010 kl. 23:49  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim