23 ágúst 2010

24. ágúst, Fyrsti skóladagurinn / Atburðir helgarinnar

Í gær var merkilegur dagur í lífi litlu "nýfæddu" skottunnar minnar, fyrsti skóladagurinn. Það er ekki laust við að hún hafi verið spennt, tók fram skólatöskuna um morguninn og fór að setja í hana það litla skóladót sem hún er búin að fá, dolluyddarann og pennaveskið. Í skólanum hennar sjá kennararnir um innkaupin og rukka síðan foreldrana fyrir. Þetta fyrirkomulag er mjög þægilegt fyrir okkur foreldrana, en ég fann að skottan saknaði þess að geta ekki farið og valið skóladótið. Í morgun var svo fundur með kennaranum þar sem hún hitti hvern nemenda fyrir sér ásamt foreldrum. Okkur líst vel á kennarann, og höfum við frétt að börnin í bekknum sem hún kenndi í fyrra hafi orðið verulega svekkt að fá hana ekki áfram. Skottan er með annarri vinkonu sinni í bekk, þeirri sem hún er meira með, en hin vinkonan fór í hinn bekkinn. Í gær fórum við svo og keyptum skólaúlpu og skó fyrir haustið, svo að nú er ekkert að vanbúnaði fyrir þá stuttu að byrja.

Það er viðburðarrík helgi að baki. Á laugardaginn var menningarnótt, og létum við mæðgur hana ekki fram hjá okkur fara. Við byrjuðum á að labba niður laugaveginn en síðan var stefnan tekin á Grófarhús þar sem farin var fræðsluganga um hernám breta 1940. Var þetta hið fróðlegasta ferðalag, enda er þetta tími sem ég hef áhuga á að kynna mér betur, komst nýlega yfir fjöldann allan af bókum um síðari heimstyrjöldina sem ég hef áhuga á að lesa. Í göngunni var farið niður á höfn þar sem breska herdeildin nam land, síðan upp í Hafnarstræti, á Austurvöll í sundið við Thorvaldsen, upp að þýska ræðismannsbústaðnum, í grjótaþorpið og endað í Austurstræti 10 þar sem sett hefur verið upp sýning um veru breska og bandaríska hermanna á Íslandi upp úr 1940. Við og við var staldrað við og sagður fróðleikur um fyrstu daga bretanna á Íslandi og þær viðtökur sem þeir fengu hjá íslendingum og þjóðverjum sem bjuggu hér. Eftir það var staldrað við á Ingólfstorgi og horft á danshóp sem sýndi salsa dansa. Deginum var síðan eytt hingað og þangað um bæinn, fórum upp og niður Laugaveginn og Skólavörðustíg, fórum á Sálmafoss í Hallgrímskirkju, en þar voru hinir og þessir erlendir kórar sem komu fram, ég heyrði m.a. í virkilega flottum kórum frá Eistlandi og Danmörku, rammfölskum sænskum kór, og aðeins í nokkuð góðum kór frá Litháen. Til að hvíla okkur aðeins frá kórunum skruppum við í Listasafn Einars Jónssonar og urðum við mjög hrifnar af því. Höggmyndirnar hans eru alveg einstakar, falleg smáatriði sem koma fram og húsið er líka skemmtilega sérstakt. Stigarnir milli hæða eru reyndar ekki til að hrópa húrra yfir, en hafa sinn sjarma líka. Íbúðin á loftinu gerir safnið svo ennþá skemmtilegra, þar sem allt hefur verið vel varðveitt, og skemmtilegt hvernig allt veggpláss milli glugga er nýtt fyrir bókaskápa. Við enduðum kvöldið á því sama og við gerðum í fyrra, að hlusta á Kristjönu Stefáns syngja djass á vinnustofu Péturs Gauts. Þegar leið á kvöldið vorum við búnar að fá nóg af menningu í bili og héldum heim á leið, nenntum engan veginn að bíða eftir flugeldasýningunni.

Húsbóndinn á heimilinu var upptekinn á laugardeginum við að hjálpa tengdapabba sínum við að skipta um þak á húsinu þeirra. Á sunnudeginum var haldið áfram með þá vinnu, og við mægður skelltum okkur með. Skottan er alltaf jafn spennt fyrir að fara austur fyrir fjall til ömmu sinnar og afa. Pabbi var búinn að taka niður helling af kössum af háaloftinu, og þar leyndust ýmsar gersemar frá mér, sem ég var löngu búin að gleyma að ég ætti til. Meðal annars komu í ljós allar bækurnar sem ég átti sem barn og unglingur, og það er greinilegt að skólastelpan á heimilinu kemur til með að hafa úr nægu lestrarefni að velja í framtíðinni.

1 Ummæli:

Anonymous Anna sagði...

Það er 368 á teljaranum á síðunni hjá þér, nokkrar af mínum uppáhaldstölum ;-). Gaman að lesa um fyrsta skóladaginn, alla menninguna sem þið genguð í gegnum sl. laugardag og heimsóknina austur fyrir fjall á sunnudaginn. Gaman væri líka að vita titlana á bókunum sem voru uppi á háalofti. Skyldum við hafa fengið eitthvað af sömu bókunum í "den"! Kveðjur og knús.

24. ágúst 2010 kl. 21:46  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim