19 desember 2003

Ég er eiginlega varla að trúa því að jólin séu á næsta leiti, þó svo að það er staðreynd að ég sé að komast í jólafrí þar til fram yfir áramót. Samt sem áður er ég komin í jólaskap eins og sönnum jólasveini sæmir. Og ég er komin lengra í jólaundirbúningnum en oft áður, búin að skrifa á öll jólakort og senda þau, kaupa nokkrar jólagjafir og pakka þeim inn meira að segja. Heimilið hjá mér lítur líka út eins og hálfgert jólasveinaheimili, enda getum við hjónin verið óttalegir jólasveinar svona stundum að minnsta kosti. Jólafríið verður líka kærkomið, og ég sé fram á að okkur takist í þetta skiptið að skreyta jólatréð áður en klukkan slær sex á aðfangadagskvöld.

Nú er bara að vona að Siggi stormur (eða Raggi rok) hafi rangt fyrir sér með að jólin verði rauð.

04 desember 2003

Sennilegast er ég búin að láta fólk bíða allt of lengi eftir nýjum skrifum frá mér, en hvað um það, hér er nýjasti pistill, samt ekki frá Jóni Bergssyni í Suður-landeyjum.

Síðustu vikur hafa liðið mjög hratt, enda hef ég haft meira en nóg að gera bæði í föndri og ýmsum mannamótum.

Jólahlaðborð.
Allan föstudaginn var andinn á vinnustaðnum mun léttari en vanalega, fólk einhvern veginn eirðarlaust, og hlátur barst um alla ganga. Greinilegt að tilhlökkunin til jólaglöggsins um kvöldið var farin að hafa áhrif á fólkið. Þar sem herlegheitin áttu að byrja klukkan 18:00 ákvað ég að í staðinn fyrir að fara heim og reka rétt inn nefið til að fara út aftur, að vinna bara fram að glöggi. Ekki verður sagt að glöggið hafi staðið undir nafni. Í staðinn fyrir að taka á móti okkur með glöggi, tók jólaglöggsnefndin á móti okkur með freyðivíni, sem margir voru mjög ánægðir með en aðrir söknuðu gamla góða glöggsins. Kvöldið leið svo mjög fljótt við glaum og gleði. Hlaðborðið sveik ekki nú frekar en fyrri daginn og var því gerð góð skil. Að því loknu voru skemmtiatriðin og hló fólk sig máttlaust yfir þeim mörgun hverjum. Síðan var spjallað og dansað fram eftir kvöldi, og bara verulega skemmtilegt.

Laugardagurinn og sunnudagurinn liðu sömuleiðis mjög hratt fyrir sig, við verslunar-leið-angur, rúnt með bóndann í Hafnarfjörðinn en hann fór í óvissu-jólahlaðborð með vinnunni sinni. Þegar hann kom heim, í kring um miðnætti, ákváðum við gömlu hjúin að skella okkur á sveitapöbbinn í nágrenninu hjá okkur. Þar voru nokkrir bílar fyrir utan, og þegar inn var komið þá var ekki þverfótað fyrir fólki, eða þannig. Eina fólkið sem við sáum voru tvær hræður sem sátu við barinn. Ekki þótti okkur þetta nú mikið stuð, og ákváðum í staðinn að hætta lífi okkar og fá okkur rúnt niður í miðbæ Reykjavíkur. En þar var álíka mikið stuð og á sveitakránni, ekki einu sinni sjáanlegar biðraðir neins staðar, og svo fór að við vorum komin heim um hálf tvö ódjömmuð að mestu. En við erum greinilega dottin út úr þessu öllu saman því að eftir á að hyggja þá mætir fólk víst ekki á þessa staði fyrr en upp úr eitt til tvö að nóttu.

Á sunnudeginum skruppum við austur fyrir fjall. Þar áttum við notalega stund í góðu yfirlæti, og komum nærri veltandi til baka eins og vaninn er þegar við förum þangað.

Þessa vikuna hefur það helst borið til að á þriðjudaginn kom tvíburahálfsystir mín í hina vikulega kortagerð hjá okkur. Þetta hefur orðið skemmtilega og góð hefð að hittast á þriðjudagskvöldum og föndra jólakort og pakkamiða. Við ákváðum þó að bregða aðeins út af vananum og fara í smá göngutúr áður en við byrjuðum. Við vorum svo einstaklega heppnar eða þannig að það var alveg fljúgandi hálka svo að við komumst hægar yfir. Við vorum farnar að grínast með það að það væri gott að við værum með gemsa því þá værir hægt að hringja í hjálp, svona ef að það þyrfti að keyra okkur heim á hjólbörum eða koma með kerru aftan í bílnum. Við komumst nú samt á leiðarenda ódottnar, svo að það varð ekki þörf á því. Ég hélt áfram að svindla á kvöldinu og tók mig til og kláraði dagatals-jólasvein sem legið hafði ókláraður inni í skáp síðan fyrir síðustu jól. Loks náði ég að gera einhverja þrjá til fjóra pakkamiða, svo að tilgangi kvöldsins yrði náð.

Annars finnst mér alveg óskaplega stutt til jóla. Er ekki alveg að ná því að það séu bara þrjár vikur þangað til eða þaðan af styttra.