07 apríl 2004

L O N D O N 20. M A R S - 23. M A R S 2004

Laugardagurinn 20. mars 2004
Vekjaraklukkan byrjaði að pípa upp úr klukkan fimm, og fljótlega komum við okkur á fætur og fengum okkur að borða morgunmat. Síðan var haldið sem leið liggur til Keflavíkur í flugstöð Leifs Eiríkssonar, þar sem við tékkuðum okkur inn, versluðum í fríhöfninni og fengum okkur svo að drekka þar til kallað var út í vél. Við vorum sem sagt á leiðinni í fjögurra daga skemmti og afslöppunarferð til London. Við lentum heilu og höldnu á Heathrowflugvelli og fengum farangurinn okkar í heilu lagi. Við vorum búin að ákveða að taka lestina inn í borgina og fórum að leita að staðnum þar sem við færum í hana. Eftir mikla leit komumst við að raun um það að engin lest færi frá Heathrow þessa helgi, heldur þyrftum við að byrja á því að taka rútu á aðra lestarstöð, og taka síðan lestina þaðan niður í bæ. Við þurftum svo að skipta um lest á leiðinni. Hótelið okkar, Radisson Sas Grafton er staðsett við Tottenham Court road, og var siglingafræðingurinn fljótur að finna út að það væri lestarstöð með sama nafni sem við skyldum fara út á. Við örkuðum upp götuna með ferðatöskuna í eftirdragi, en hún er sem betur fer á hjólum. Enda kom það fljótt í ljós að siglingafræðingurinn hafði ekki kynnt sér málin nægilega vel og var hótelið staðsett í hinum endanum á götunni, og með þessa líka fínu lestarstöð við hliðina á hótelinu.

Við tékkuðum okkur inn og fengum herbergi númer 514, sem var hið fínasta herbergi inni á smá prívatgangi. Við komum okkur fyrir og slöppuðum af í smá tíma, en ákváðum síðan að fara út og kíkja á nágrennið. Við tókum lestina til baka niður á gatnamótunum að Tottenham Court road og Oxford street, og kíktum í verslanir. Við létum okkur nægja að fá okkur Burger King hamborgara í kvöldmat og slöppuðum síðan af uppi á hóteli um kvöldið og gerðum áætlun um hvað við ætluðum að skoða næsta dag.


Sunnudagurinn 21. mars 2004.
Við ákváðum að taka daginn snemma og fengum okkur morgunmat inni á hótelherbergi áður en við tókum lestina niður á Trafalgartorg. Þar fengum við smá rigningu yfir okkur, en hún stoppaði stutt við. Á Trafalgartorgi er stór og mikill gosbrunnur og stór stytta af Nelsoni flotaforingja ásamt fleirum, og torgið er umkringt af fallegum styttum. Áfram héldum við að aðsetri vörðum drottningar en á þessum stað sitja tveir verðir á hestum allan daginn. Hlýtur að vera frekar einmanalegt starf að sitja þarna allan daginn og láta ferðamenn góna á sig sí og æ alla daga. Inni í milligöngum var svo einn hestlaus vörður líka.

Við gengum síðan sem leið liggur í gegn um St. James garðinn, og það var ekki laust við að um okkur færi vorstraumur. Grasið var allt orðið grænt, runnarnir byrjaðir að laufgast og beðin orðin full af sumarblómum. Stærri trén voru hins vegar ekkert farin af stað. Í þessum garði er mikið fuglalíf. Meðal annars sáum við svartan svan og pelíkana og náðum við að klappa þeim aðeins. Þarna var mikið líf og fjör í garðinum, greinilega fjöldi fólks sem naut verðurblíðunnar á þessum sunnudegi.

Hinum megin við St. James garðinn er Buckinghamhöll og fórum við að girðingunni í kringu um hana í von um að við myndum sjá vaktaskipti varðanna klukkan ellefu, en þetta var greinilega ekki réttur dagur. Þarna var yfirfullt af fólki sem var greinilega í sömu erindagjörðum og við, en fór að tínast í burtu upp úr ellefu þegar ljóst var að það yrðu engin vaktaskipti þennan daginn. Við hliðina á höllinni er lítil verslun með alls konar minjagripum tengdum höllinni og kíktum við þar inn og versluðum okkur einn penna og lyklakyppu.

Þegar við komum út úr versluninni vorum við ekki alveg klár á því í hvora áttina við ættum að fara. Bóndinn benti á að allt fólkið færi í sömu áttina, svo að hún hlyti að liggja að einhverjum merkilegum stað. Og jú, straumurinn lá í rúturnar sem voru staðsettar ekkert langt frá. Við héldum samt áfram í þessa átt og skoðuðum okkur um. Ákváðum síðan að það væri tími til kominn að fá okkur að borða og við stoppuðum á Pizza Hut og fengum okkur pizzu.

Eftir matinn héldum við göngu okkar áfram og komum að kirkju, Westminster Cathedral, mjög fallegri kirkju. Messu var að ljúka þarna og stóðu prestarnir á tröppunum og kvöddu kirkjugesti. Þetta er mjög falleg kirkja og vel þess virði að skoða hana.

Eftir að við höfðum skoðað kirkjuna gengum við áfram í áttina að Thames ánni, fram hjá Big Ben, niður að brúnni yfir á hinn bakkan. Við sáum að það var stutt í að ferja færi í skoðunarferð um ánna og keyptum við okkur miða fram og til baka til Greenwich, staðarins sem tímabeltið er miðað við. Við byrjuðum á því að setjast upp á þak á ferjunni, en flúðum fljótlega niður þar sem það var frekar napurt þarna uppi. Það var alveg virkilega gaman að sigla um ánna, og margt að sjá.

Þegar við komum til baka töldum við nú að það væri orðinn nokkuð góður skoðunarskammturinn yfir daginn og tókum lestina yfir að hótelinu. Þegar við höfðum slappað af inni á herbergi fórum við af stað aftur og á indverskan veitingastað sem ekki var langt frá hótelinu. Þar vorum við svo heppin að við fengum tilboð á nokkrum réttum, svo að við gátum prófað ýmsa áhugaverða rétti, og þeir voru missterkir en hver öðrum betri. Skammturinn var líka svo stór að við gátum ekki einu sinni klárað allt.

Það sem eftir var kvöldsins slöppuðum við af uppi á herbergi og horfðum á sjónvarpið.


Mánudagurinn 22. mars 2004
Við byrjuðum daginn á að fá okkur gönguferð á vaxmyndasafnið Madame Tussau, og skemmtum okkur alveg konunglega. Þar sem við vorum frekar snemma á ferð, þá voru tiltölulega fáir ennþá á safninu, og hægari vandi að skoða okkur um. Fyrst komum við inn í sal sem var fullur af fólki, þegar betur var að gáð, þá var mikið af þessu fólki úr vaxi, og samanstóð af hinum ýmsum leikurum. Síðan röktum við okkur í gegn um safnið og komum meðal annars inn á nýtt svæði sem er lifandi hryllingssvæði, þar eru leikarar sem klekkja á þeim sem ganga í gegn. Að lokum fórum við með lest í gegn um sýningu sem sýnir sögu Bretlands. Það sem var að þessu safni var að það byggir mjög mikið á því að selja ýmsan varning til fólks og það var ekki alveg hlaupið að því að komast út úr versluninni, þar sem útgangurinn var aðeins afsíðis. Þetta tókst samt að lokum

Og nú var strikið tekið niður á Oxfordstræti og kíkt í verslanir. Við komum núna upp á efri hluta verslunargötunnar þar sem er meira um stór vöruhús en neðar í götunni. Við komum meðal annars við í Baugsversluninni Selfridge og var virkilega fróðlegt að skoða sig um það, sérstaklega á jarðhæðinni sem sérhæfir sig í alls konar tilbúnum mat. Þetta er frekar dýr verslun svo að við skoðuðum lítið aðrar deildir. En við nýttum þennan dag til að versla og versluðum slatta.

Um kvöldið eftir verslunarleiðangurinn fengum við okkur að borða á hótelinu. Í forrétt fékk ég mér gæsabringu og gæsalifrarpate, en bóndinn villisveppi í stóru tartalettuformi. Í aðalrétt fengum við okkur svo nautasteik, virkilega góða, og vorum við sannarlega ekki svikin af þessum mat. Eftir kvöldmatinn fórum við svo upp á herbergin og tókum til við að pakka niður.


Þriðjudagurinn 23. mars 2004
Nú var heimferðardagurinn upp runninn. Við kláruðum að pakka niður og fórum svo með farangurinn niður í afgreiðslu þar sem við fengum að geyma töskuna. Síðan var farið aftur niður á Oxford stræti og haldið áfram að versla. Reyndar vorum við frekar þreytt í fótunum eftir daginn á undan og því var stoppað ansi oft á kaffihúsum og sætum í skódeildum til að hvíla lúin bein. Seinni partinn tókum við svo lestina á hótelið til að sækja töskuna og síðan áleiðis á flugvöllinn. Fyrri hluta leiðarinnar gekk það mjög vel að komast með lestinni, en það var öllu verra þegar við skiptum um lest því við vorum á annatíma á ferð, og fengum að kynnast því hvernig það er að vera eins og síld í tunnu, og það var alveg merkilegt hvað var lengi hægt að troða. Þegar nálgaðist flugvöllinn fór fólk þó að tínast út úr lestinni og það kom að því að við gátum fengið okkur sæti. Síðan tóku við færibönd, stigar og krókaleiðir til að komast á réttan Terminal, og það gekk bara nokkuð vel. Og af því þetta gekk svona vel var bóndinn vel uppveðraður og rauk að næsta afgreiðsluborði merktu Icelandair, þar sem við vorum svo heppin að það var enginn að bíða þar eftir afgreiðslu. Þegar við höfðum tékkað okkur inn gengum við áfram og sáum þá að það var alveg röð við inntékkunina hjá Icelandair hinum megin. Við höfðum þá tékkað okkur inn hjá Saga Business klass, við vorum samt ekki svo heppin að fá sæti þar, enda höfðum við valið sætaskiptanina um leið og við pöntuðum farið.

Við höfðum alveg nægan tíma á flugvellinum svo að við kíktum aðeins í verslanir sem eru vægast sagt fokdýrar þarna nema fríhafnarverslunin sjálf. Síðan römbuðum við inn á fínasta matsölustað, og ákváðum að setjast þar niður og panta okkur pizzu. Ég verð að viðurkenna að ég hef nú oft fengið betri sjávarréttarpizzu en þarna, en ég fékk að smakka pizzuna hjá bóndanum líka og bragðaðist hún virkilega vel.

Þegar farið var að kalla út í vél drifum við okkur af stað í vélina og gengum að sjálfsögðu að okkar sætum vísum. Vélin var ekki full, svo að við gátum haft þriðja sætið út af fyrir okkur. Heimferðin tók aðeins lengri tíma en ferðin út, og lentum við í Keflavík heilu og höldnu upp úr miðnætti. Ferðin gekk öll eins og í sögu, og meira að segja komumst við í gegn um tollinn án þess að vera stoppuð. Það var virkilega gott að koma heim til sín, þó að ferðin hafi verið mjög góð, og fara að sofa í sínu eigin rúmi.