29 janúar 2003

Það sem er efst á baugi í dag er blessuð íslendingabók. Nú getum við fengið upplýsingar um það hver er skyldur manni og hvernig og uppgötvast ýmislegt við þá skoðun. Ég er búin að uppgötva að vinnufélagarnir eru allir meira og minna skyldir mér, þó svo að það sé reyndar langt aftur í ættir. En ég er líka búin að komast að því að ég á þrjá náfrændur í vinnunni líka. Til dæmis er ég og maðurinn sem ég er í samvinnu við fjórmenningar, eigum sama langalangafann. Sonur hann sem einnig vinnur með okkur er þar af leiðandi líka frændi minn. Þriðji vinnufélagi okkar er skyldur okkur í sömu ættinu, og erum ég og mamma hans líka fjórmenningar. Það er því ættarmót á vinnustaðnum á hverjum degi. Nú er líka hægt að skoða langalang afa og ömmur, og foreldra þeirra o.s.frv. Mér finnst mjög gaman að skoða þetta og fræðast um þann hluta ættarinnar sem ég hef ekki verið klár á áður. Semsagt mikið gaman og mikið grín. Sjálfsagt á maður eftir að komast að enn fleiru um leynda ættingja á næstunni.

28 janúar 2003

Kusa sjónvarpssjúka fékk heldur betur nóg að gera um helgina. Sýn sá til þess. Heilir 24 þættir af "tventy four hours". Ég horfði hins vegar ekki á þá alla, er samt örugglega búin að sjá 12 - 13 þætti ef ekki meira, og ætla að kíkja á þá svona smátt og smátt. Ég veit ekki hvernig þeir sem hafa horft á þess þætti þegar þeir voru sýndir einn og einn í einu hafa getað haldið út spennuna í heila viku. Reyndar ætlar það að verða sama sagan með launráð á ríkissjónvarpinu, það er erfitt að bíða í heila viku.

24 janúar 2003

Handboltaleikurinn gegn Portúgölum var ekkert smá spennandi. Þetta er með betri og spennandi handboltaleikjum sem ég hef séð síðari ár. Liðin voru svo jöfn og það var alveg virkilega erfitt að spá um endinn. Strákarnir okkar voru heldur betur að standa sig vel.

Enn einu sinni varð alvarlegt slys á veginum milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, og það svo að loka þurfti veginum. Ég veit eiginlega ekki hvað þurfa að verða mörg slys þarna í viðbót áður en að farið verður í að breikka veginn þarna á milli. Umferðin þarna á milli er óhemju mikil, en ennþá er þessi breikkun bara á áætlun fyrir árið 2004. Hins vegar virðist liggja meira á að breikka veginn til Keflavíkur þar sem fer mun minni umferð um en um vesturlandsveginn. Það er greinilegt hverjir eiga bestu þingmennina, við Mosfellsbæingar fáum bara að fylgja með svona til að svæðið fái fleiri atkvæði.

Mér finnst það hreint út sagt frábært að það sé að koma helgi. Þessi vika er búin að vera erfið, mikið að gera í vinnunni o.s.frv. Nú er bara að fara af stað í smá verslunarleiðangur, í fatabúðir, og hver veit nema að hugsað verði til bóndans í tilefni dagsins. Ekki hef ég samt trú á að hann hafi hoppað í kringum húsið í annarri buxnaskálminni eins og siður var í gamla daga.

23 janúar 2003

Það er greinilega kominn vetur, það sá ég í morgun þegar ég keyrði í gegn um skafrenning og hálku, og var nærri farin út á vitlausum stað í hringtorgi. En ég er þrjóskari en bíllinn svo að ég komst út af því á réttum stað. Það voru líka greinilega einhverjir ennþá á sumardekkjunum, því meðalhraðinn var í kring um 40, þar sem venjulega er um 80 - 90 km. meðalhraði. Ég komst samt á endanum í vinnuna eftir 40 - 45 mínútna akstur.

Annars átti ég mjög gott kvöld í gærkvöldi á kaffihúsi með vinkonum mínum úr saumaklúbbnum. Í þetta skiptið stóð saumaklúbburinn ekki undir nafni, því við skildum saumadótið eftir heima. Það hefði nú svo sem verið gaman að sjá upplitið á fólki ef að við hefðum allar tekið upp handavinnuna okkar og farið að sauma þarna í miðjum sal. Hins vegar er ákveðið að það verði saumað þegar við hittumst næst. Við fórum á Súfistan á laugaveginum og nutum þess að fá okkur kaffi/te og spjalla um daginn og veginn. Ekki skemmdi heldur fyrir að getað gluggað í áhugaverðum bókum í leiðinni. Ég var ekki lengi á mér að finna nokkrar heimilis og föndurbækur, datt m.a. niður á virkilega góða handbók fyrir dútlara í trésmíðí. Það er greinilegt að þetta er mjög vinsælt kaffihús því það var setið við hvert borð, og um leið og borð losnaði þá var það orðið upptekið aftur.

21 janúar 2003

Mér þætti gaman að vita hvernig Áströlum datt í hug að taka þátt í heimsmeistaramóti í handbolta. Ég held helst að þeir hafi misskilið reglurnar, að sá ynni sem hefði færri mörkin. Ég man ekki eftir að hafa heyrt af meiri markamun í boltanum áðum, 55 mörk á móti 15 eru tölur sem eru alveg ótrúlegar. Það væri gaman að sjá hvernig íslendingum gengur með grænlendingana í dag.

Það er enginn smá kuldi núna, 12 -13 °C. Við erum orðin svo góðu vön eftir öll hlýindin upp á síðkastið, og það hlaut að koma að því að veturinn kæmi. Ég ætlaði að vera búin að koma mér í sund núna í vikunni, en hrýs frekar hugur við það í þessum kulda.

Nú er hægt að gera meira af viti á mánudagskvöldum en áður, eða til klukkan níu þegar Dead zone byrjar. Þessir þættir eru dálítið úr takt við raunveruleikann, en það er gaman af þeim engu að síður. En uppáhaldið mitt núna er Launráð á ríkissjónvarpinu. Alveg ótrúlega góðir og spennandi þættir. Það væri gaman að vita hvort þetta væri raunveruleikinn hjá CIA og SD6. Leikkonan sem leikur Sydney Bristow stendur sig frábærlega vel í þessu hlutverki.



17 janúar 2003

Ég var sko límd við sjónvarpið í allt gærkvöld. Enn eitt kvöldið farið í vitleysu, kvöld sem ég hefði alveg eins getað notað í að gera eitthvað af viti, eins og föndra t.d. Það er bara svo gaman að horfa í dæmigert fjölskyldulíf amerískra fjölskyldna, eins og Raymonds og þeirra í "Kings of Queens". Mikið er ég fegin að eiga íslenskan mann, þessir amerísku eru svo hallærislegir ef marka má þessa þætti. Þátturinn um piparsveininn stóðst fullkomlega væntingar. Reyndar hefði ég viljað sjá annan gaur í keppninni, þennan sem var sýndur fyrst, en sá sem var valinn virkar samt langt um meira spennandi en sá sem var í síðustu seríu. Mér líst líka vel á að Trista fái að spreyta sig í að velja sér mann, miðað við hvað var farið illa með hana í síðustu seríu. En það sem kom mér mest á óvart var að þau voru ennþá saman parið úr síðustu seríu, sérstaklega af því að ég var einhvers staðar búin að heyra að þau væri hætt saman. Maður á greinilega ekki að trúa öllu sem manni er sagt.

Ég bara hreinlega trúi því ekki að það sé aftur kominn föstudagur. Það var mánudagur í gær. Ég held hreinlega að það sé verið að svindla á mér. Það verður samt ótrúlega gott að sofa út á morgun.

16 janúar 2003

Þá er sælan búin. Við taka dagar þar sem nauðsynlegt er að skafa af bílunum eigi maður ekki að eiga á hættu að keyra á nágrannana. Ég er líka svo góðu vön, hef bílinn vanalega inni í skúr, en núna er bóndinn búinn að yfirtaka hann fyrir sinn bíl, þannig að nú er komið að mér með sköfuna. Ekki að það hafi verið mikið mál í morgun, og það er nú kominn tími til að hann fái líka að njóta skúrsins.

Nú reynir líka á þolinmæði ökumanna. Í stað þess að vera rétt rúmar tuttugu mínútur á leið í vinnuna eins og ég er vanalega þá tók það mig 35 -40 í morgun. Menn siluðust áfram, greinilega ekki alveg öruggir í snjónum og örugglega einhverjir á ferli sem ekki hafa séð ástæðu til þess að setja vetrardekkin undir ennþá. Hluta leiðarinnar lyfti nálin á hraðamælinum sér varla upp fyrir 20 km.

Það lyftist samt óneitanlega á manni brúnin við snjóinn, það er svo mikill munur hvað allt er bjartara núna. Og ég er viss um að það hefur glaðnað yfir mörgu barninu að sjá í morgun ekta snjókallasnjó. Það var líka svo fallegt yfir að líta, snjórinn klæddi trén svo að umhverfið leit út eins og á póstkortamynd. Ekki leiðinlegt að kíkja í kringum sig á svona degi.

Jibbý, piparsveinninn er að byrja í kvöld á skjá einum. Mér finnst lúmskt gaman að horfa á þennan þátt, merkilegt hvað fólk er tilbúið að leggja sig í í henni Ameríkunni. Sjálfsagt þarf ekki einu sinni að fara svo langt, fjöldinn sem fer í djúpu laugina til að keppa um stefnumót við einhvern ókunnugan í von um að draumaprinsinn/-prinsinn sé akkúrat í sömu hugleiðingum. Eru svo kannski svo óheppnir að lenda á óttalegum lúðum.

15 janúar 2003

Ég er að velta fyrir mér hvað þetta hvíta er þarna úti í garði. Ekki vænti ég að það sé eitthvað sem heitir snjór? Ég var farin að halda að svoleiðis fyndist bara í gömlum bíómyndum og í Evrópu. En það er greinilegt að íslendingar eru komnir inn á snjókortið.

Tilveran er að komast á réttan kjöl eftir jólin. Jólaspikið er reyndar enn á sínum stað, eða mesti parturinn af því, svo að það er full vinna framundan í að kippa því í laginn. Ekki var gærdagurinn a.m.k. til að flýta fyrir því. Fór í kaffi til Kristborgar og hitti Ragnhildi. Ég hélt þetta hefði átt að vera kaffisopi og ein eplakaka, en það beið okkar hlaðborð af kræsingum. Þetta var mjög skemmtileg stund, enda langt síðan við höfum hist svona allar þrjár. Meðal umræðuefna var tíminn. Við upplifum það allar að tíminn í dag líður miklu hraðar en þegar við vorum yngri. Börnin í dag virðast líka upplifa þennan hraða, svo að það eru greinilega einhverjar ytri aðstæður sem gera það að verkum að tíminn er fljótari að líða í dag en fyrir 20 árum. Niðurstaðan var sú að snúningurinn á tímanum væri bara miklu hraðari nú en þá. Hvar endar þetta? Kannski að mannsæfin verði bara klukkutími eftir nokkur hundruð ár? Við lifum kannski ekkert lengur nú en áður, heldur eru sekúndurnar styttri en áður.

Annars get ég ekki annað en hlegið að aumingja rússanum sem festi gullið sitt við strætóskýli í 30 stiga gaddi. Þessi frétt í Morgunblaðinu er í anda við brandarann um fínu frúnna sem kom inn í verslun.

Fína frúin: "7000 kr. fyrir þetta pínulitla veski, þvílíkt okur!!!"

Afgreiðslukonan: "já frú mín góð, þetta er úr ekta tittlingaskinni og ef að þú sleikir það, þá breytist það í ferðatösku"

08 janúar 2003

Veðurfarið upp á síðkastið kemur sífellt á óvart. Rigning nánast upp á hvern dag og hitastigið á bilinu 4 - 10 gráður. Er þetta hægt? Á meðan eru evrópubúar að krókna úr kulda og kafna í snjó. Það lítur út fyrir að við verðum að skipta um nafn á landinu okkar, ekki lengur hægt að kalla það Ísland. Veðurguðirnir eru sjálfsagt að sjá til þess að við getum örugglega notað vinsælasta umræðuefnið okkar, veðrið. Reyndar er ekki hægt að kvarta, við komumst leiðar okkar, um allt land.

Maður verður fyrir hálfgerðu menningarsjokki núna þegar búið er að taka niður jólaljósin á mörgum stöðum og jólaskrautið komið ofan í kassa og inn í geymslu, þar sem það bíður eftir því að vera tekið upp aftur fyrir næstu jól. Það er a.m.k. ekki laust við að heimilið sé hálf tómlegt eftir þetta. En sjálfsagt verðum við búin að venjast þessu eftir nokkra daga.

Jæja, þá hefur mitt blogg litið dagsins ljós. Hér hef ég hugsað mér að setja fram hugleiðingar mínar og dagbók jafnvel. Um að gera að taka þátt.