25 mars 2020

25. mars 2020 - Heimavinnudagur þrjú

Nú er þriðji dagur í heimavinnu. Ég hef vanið mig á að halda rútínu, klæði mig á morgnana og set upp andlitið eins og ég væri að mæta til vinnu. Hér er engin náttfatavinnustofa. Miða við að vera sest við vinnu um níuleytið. Heldur erfiðlega gengur samt að halda athyglinni við vinnuna allan tímann og það er smávægilegt eirðarleysi að hrjá mig þessa dagana.

Það sló mig í morgun að heyra í sjúkrabílum á Reykjanesbrautinni og það nokkrum sem gaf til kynna að eitthvað meira en smávægilegt slys hefði orðið. Síðan var aftur sirenuvæl um hálf tíu, ég var að vona að við minni umferð myndu slysum fækka. Við fyrstu fréttir virðast ekki um alvarleg slys hafa verið um að ræða. En víst er að þetta minnkar ekki álagið á heilbrigðiskerfið sem þegar er mjög mikið.

Á síðasta ári skipulögðum við þrjár mæður og þrjár dætur, bekkjasystur í 10. bekk útskriftarferð stelpnanna í vor, og átti það ekki að vera ferð af lakara tagi. Annars vegar var ætlunin að fljúga til Búdapest 28. maí og fara á tónleika Harry Styles þann 31. maí, fljúga síðan yfir til Prag 1. júní og á tónleika þar með 5 seconds of summer (5SOS) sama kvöld, og koma heim til Íslands þann 4. júní. Í morgun komu fréttir um að búið væri að fresta Harry Styles tónleikunum fram til 22. febrúar 2021, en engar upplýsingar komnar um tónleikana í Prag, en mjög líklegt er að þeim verði frestað líka ef ástandið í heiminum er ennþá óöruggt á þeim tíma. Ef þeim tónleikum verður frestað líka, þá yrði það harla ólíklegt að svo vel hitti á að þeir yrðu á svipuðum tíma og Harry Styles tónleikarnir þannig að hægt væri að gera úr því eina ferð. Við höfum ekki ennþá gefið ferðina upp á bátinn að sinni, sérstaklega ekki ef að tónleikarnir í Prag haldast á réttum tíma, við munum þá bara njóta þess að skoða Búdapest og fljúga síðan yfir til Prag 1. júní eins og plön eru um.

Síðustu tölur af Corona eru þær að í dag hafa 737 smit verið staðfest, yfir 9 þúsund manns eru í sótthví, 56 manns er batnað og tveir eru látnir. Í fyrrakvöld lést 71 árs kona og að öllum líkindum dó ástralskur ferðamaður á fertugsaldri úr veirunni á heilbrigðisstofnuninni á Húsavík fyrir viku þó að ekki sé endanlega búið að skera úr um endanleg dánarorsök. Hert samkomubann er í gildi og mjög margir virða það og halda sig sem mest heima, en svo virðist sem aðrir eigi erfiðara með slíkt. Mér finnst umferðin hér um götuna í dag vera mun meiri en hún var á mánudag og í gær, hvað sem veldur. Margir verslunarrekendur og hafa valið að loka verslunum sínum en halda uppi öflugri netverslun í staðinn. Eins hafa mörg veitingahús lokað, enda erfitt að halda uppi veitingastöðum þegar einungis er heimilt að vera með 20 manns inni í einu, og það með talið starfsfólki á staðnum. Þetta verður vonandi til þess að okkur gangi betur að vinna á veirunni, færri veikist og vel takist til að vernda viðkvæmasta hópinn svo við þurfum ekki að sjá á eftir fleiri mannslífum í klær hennar.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim