22 apríl 2003

Jæja, þá eru páskarnir búnir og alvaran tekur við. Þessi vika er reyndar mjög stutt, aðeins þrír vinnudagar.

Það er ekki laust við að það taki mann samt smá tíma að komast inn í daglega rútínu aftur eftir letilíf síðustu daga og ofát í fermingar- og afmælisveislum. En þetta fylgir víst þessu tímabili. Ég fór í göngutúr í hádeginu með vinkonu minni í sólskininu og naut góða veðursins og það var alveg verulega erfitt að fara inn aftur úr veðurblíðunni. Ég get huggað mig við það að það verða líklegast fleiri svona dagar á næstunni, og þá hægt að fara í fleiri göngutúra. Kannski að á fimmtudaginn verði fyrsti sumardagurinn fyrsti í langan tíma sem stendur undir nafni.

08 apríl 2003

FERÐIN TIL BUDAPEST ÞANN 3. - 6. APRÍL 2003

Fimmtudagurinn 3. apríl 2003
Dagurinn var tekinn eldsnemma, enda stefndum við að því að mæta út á flugvöll um klukkan sjö, til þess að eiga góðan tíma fyrir okkur og sleppa við alla örtröðina við innritunina. Tímaáætlunin stóðst, en okkur til mikillar undrunar höfðu greinilega fleiri hugsað eins og við, því það var löng biðröð við innritunarborðin þrátt fyrir að flugið yrði ekki fyrr en klukkan níu. Flugið gekk vel, og vorum við lent á flugvellinum við Budapest, á undan áætlun. Við ákváðum að taka leigubíl á hótelið í stað rútu, og vorum fyrir vikið komin á hótelið langt á undan hópnum. Á leiðinni bar margt fyrir augum, og vakti ýmislegt athygli okkar. Fjöldi húsa var í algjörri niðurníðslu og greinilegt að sum þeirra hefði þurft að jafna við jörðu. Í öðru lagi voru Lada og gamlar Skodabifreiðar mjög áberandi í bílaflotanum, auk Wartburgara og lítilla Fíatlúsa, og annarra sambærilegra glæsivagna sem að mestu leyti eru dottnir út úr bílamenningu íslendinga. Meirihluti bílaflotans er samt sem áður nýlegur og tegundirnar þær sömu og við sjáum á götunum hér heima. En það var óneitanlega fyndið að sjá lögregluna á fullri siglingu á Lada Sport.

Á hótelinu fengum alveg frábæra þjónustu. Á móti okkur kom "töskustrákur" með kerru og keyrði töskurnar okkar inn í gestamóttöku, og þegar við höfðum fengið lyklaspjöldin að herberginu sá hann til þess að töskurnar okkar komust heilu og höldnu inn á herbergi. Og það var ekki hægt að kvarta yfir herberginu, sem var á 6. og efstu hæðinni, því að það var virkilega flott, vel tækjum búið en með útsýni yfir í næstu álmu, sem okkur fannst ekki alveg eins gott. Við vorum búin að taka upp úr töskunum og höfðum komið okkur vel fyrir þegar við heyrðum umgang frá fyrstu íslendingunum í nágrannaherbergjunum.

Klukkan fimm hittum við fararstjórann, hana Gunnhildi Gunnarsdóttur og gekk hún með okkur sem leið lá niður í miðbæinn til að sýna okkur helstu staðina, upplýsa okkur um hraðbanka, hvar helstu verslanir væru að finna, opnunartíma verslana o.fl. og upplýsa okkur um sögu borgarinnar. Einnig sýndi hún okkur hvernig við kæmumst leiðar okkar yfir helstu breiðgöturnar, eða öllu heldur undir þær. Út um allt eru undirgöng, þar sem við komumst víðast hvar að auki inn á neðanjarðarlestarkerfið. Undirgöng þessi eru meira og minna full af alls konar útigangsfólki á daginn, en lítið fór hins vegar fyrir því þar á kvöldin. Við skoðuðum okkur aðeins meira um miðbæinn og fórum síðan upp á hótel og borðuðum á veitingastað hótelsins. Við pöntuðum okkur gúllassúpu, sem var hið mesta lostæti, sem og dádýrakjöt sem er það besta kjöt sem ég hef smakkað, að öðru ólöstuðu. Bóndinn fékk sér hins vegar Sirlonsteik sem hann var ekki eins hrifinn af. Það sem eftir var kvöldsins slöppuðum við af upp á herbergi.


Föstudagurinn 4. apríl 2003
Við byrjuðum daginn á morgunverðarhlaðborði hótelsins þar sem borðin svignuðu undan áleggssortunum. Síðan var haldið af stað í skoðunarferð um borgina þar við fengum að sjá marga fallega og merkilega staði. Í þetta sinn var fararstjóri okkar hann Friðrik Friðriksson.

Byrjað var á að skoða hetjutorgið sem reist var til minningar um þær sjö fjölskyldur sem fyrst stofnuðu Ungverjaland. Torginu er skipt niður í tvo boga, á öðrum boganum er fyrstu konungar landsins, og vorum við leidd í allan sannleika um þá merkilegustu. Á hinum boganum voru sjö helstu prinsar landsins. Síðan var keyrt umhverfis borgargarðinn þar sem heimssýningin 1896 var haldin, en þar voru byggðar ýmsar eftirlíkingar af frægum byggingum í Ungverjalandi (þ.e.a.s. eins og Ungverjaland var á þeim tíma) úr bráðabirgðaefnivið. Eftir sýninguna var ákveðið að þessar byggingar skyldu vera áfram í garðinum og voru þær þá endurbyggðar úr varanlegu byggingarefni, og standa þessar byggingar flestar enn þann dag í dag.

Síðan fórum við í Stefánskirkjuna sem kennd er við fyrsta konung Ungverjalands. Verið er að gera kirkjuna upp þar sem hún skemmdist í seinni heimstyrjöldinni. Hún er hreint listaverk, byggð úr marmara og klædd með gyllingu út um allt. Næsti áfangi var þinghöllin á bökkum Dónár, sem er stórglæsileg bygging. Áður en húsið var byggt var haldin samkeppni um hönnun þinghússins og voru valdar þrjár bestu hugmyndirnar. Á þeim tíma virtust vera til nægir peningar í landinu og var ákveðið að byggja allar þrjár byggingarnar sem voru í þremur efstu sætunum, og hýsa þær hver um sig einhverja stofnun borgarinnar. Þaðan var haldið sem leið lá yfir brúnna yfir Dóna yfir í borgarhlutann Buda. Þar var farið upp í fiskimannavirkið og var hópnum skipt þar upp, hluti hópsins fór í að skoða lyfjasafn en hinn hlutinn skoðuðu Matthíasarkirkju og safn sem er í kirkjunni. Ferðinni lauk svo með því að ekið var upp á kastalahæðina, þar sem íbúar borgarinnar byggðu virki til að getað haft eftirlit með ferðum um ánna. Buda hluti borgarinnar er mjög hæðóttur, og er þetta vinsæll staður fyrir ríka fólkið til að byggja á, einkum þar sem til fjallanna er ekki eins hlýtt á sumrin og á láglendi. Rútan skilaði okkur síðan á hótelið upp úr klukkan tvö.

Við slöppuðum af í smá tíma inni á herbergi, og síðan gengum við meðfram aðalgötunni hinum meginn, til að sjá hvað væri þar og kíkja í búðir. Ég afrekaði það að kaupa mér heklugarn og útsaumsblað í þessum áfanga. Í bakaleiðinni kíktum við inn á veitingastaðinn Mozaik, sem fararstjórinn hafði mælt með og pöntuðum okkur borð fyrir kvöldið. Þessi staður hefur ekkert verið auglýstur í bæklingum og hefur aðallega gefið sig út fyrir að vera veitingastaður fyrir heimamenn. Í forrétt fengum við okkur andalifrapate, sem er eitt af sérréttum Ungverja, í aðalrétt fékk ég mér kalkún í sojasósu en bóndinn pantaði sér nautasteik. Allt var þetta virkilega gott, þó svo að sojasósubragðið af kalkúninum hafi verið helst til mikið. Eftir kvöldmatinn fengum við okkur göngutúr í hina áttina frá hótelinu.


Laugardagurinn 5. apríl 2003
Þessi dagur hefur sérstaka þýðingu fyrir Ungverja, því að þann 12. apríl næstkomandi kjósa þeir um inngöngu í evrópusambandið. Í dag eru því kynningar út um allt fyrir kosningarnar. Innganga í evrópusambandið hefur aðra þýðingu fyrir Ungverja en fyrir mörg önnur lönd. Ungverjar hafa mátt sæta því að landið hefur verið hertekið og hluti þess jafnvel innlimað í önnur ríki. Transylvania var hérað í Ungverjalandi en tilheyrir Rúmenum í dag, þrátt fyrir að íbúarnir séu ungverjar, og líti á sig sem slíka. Einnig búa ungverjar í hluta af Slóvakíu. Af þeim sökum styðja margir ungverjar inngöngu í evrópusambandið, því að þá verður Ungverjaland land án landamæra og þeir geta tengst ungverjum í öðrum löndum án þess að fara í gegn um landamærastöðvar og sýna vegabréf. Þannig líta þeir á evrópusambandið sem sameiningartákn.

Þennan dag ákváðum við að nýta í verslunarleiðangur í stærstu verslunarmiðstöð evrópu, West end. Við tókum neðanjarðarlest þangað, og tókst okkur að komast á áfangastað án þess að villast mjög mikið. Aðalvandræðin voru í hvora áttina vagnarnir fóru. Það má með sanni segja að þessi verslunarmiðstöð er stór. Hún er á fjórum hæðum og hver hæð með þvílíkum ranghölum. En þrátt fyrir alla þessa stærð fundum við fátt til að kaupa, og minjagripabúðir sem við höfðum stílað á að finna, voru fáar, og þá ekki með neinum sérstökum varningi. Þessi dagur leið því án nokkurra stórræðna. Um kvöldið ákváðum við að fara á stúfana með að finna einhvern ekta ungverskan veitingastað. Hann fundum við í hliðargötu frá aðalgötunni. Þetta var lítill staður og virkilega heimilislegur, með gamlar fjölskyldumyndir á veggjunum, og gömlum píanóleikara sem var eins og klipptur út úr rússneskri bíómynd frá tímum Stalíns. Við fengum okkur súpu í forrétt, ég dádýr í aðalrétt og eiginmaðurinn fyllta gæs. Þetta var sísti maturinn sem við fengum í ferðinni, en þó hægt að "slafra" honum í sig. Eftir matinn fengum við okkur smá göngutúr um nágrennið, og þá sáum við alla eymdina sem er í þessari borg. Í hverju skoti var útigangsfólk búið að gera sér fleti og svaf þar út um allt, og virtust ekkert láta á sig fá, þótt fjöldi fólks gengi framhjá.

Nú var komið að því að pakka farangrinum niður aftur fyrir brottförina á sunnudeginum. Það gekk fljótlega fyrir sig, því að við höfðum passað okkur á að taka hæfilegt magn af fötum með okkur, og höfðum þar að auki lítið keypt fram að þessu í ferðinni.


Sunnudagurinn 6. apríl 2003
Allt tekur enda, og eins er það með þessa ferð. Nú var skollinn á síðasti dagur ferðarinnar. Við fórum á fætur um átta leytið að staðartíma og drifum okkur í morgunmat. Síðan var taskan sett inn í rútu og haldið af stað í Dónárdalinn. Það var enginn smá hópur sem fór í þessa ferð, því ekki dugði minna en tvær tveggja hæða rútur undir allan fjöldann, og þær voru báðar fullar.

Fararstjórinn í okkar rútu var Ferenc Utassi, ungverji sem hefur búið mjög lengi á Íslandi en er í dag ræðismaður Íslands í Ungverjalandi. Hann talar mjög góða íslensku og var með húmorinn í góðu lagi og reitti af sér brandarana. Hann varpaði líka meira ljósi á hugarheim ungverja svo það var alveg virkilega gaman að hlusta á lýsingarnar hjá honum.

Ekið var sem leið liggur um skógi klædd fjalllendi sem í dag er þjóðgarður, í gegn um bæinn Szentendre og áfram að Esztergom þar sem stærsta dómkirkja landsins er staðsett, og er hún hin glæsilegasta. Frá dómkirkjunni er gott útsýni yfir Dóná til Slóvakíu, og sáum við m.a. brúnna milli landanna yfir ánna. Það er einungis ár síðan þessi brú var endurbyggð en hún var sprengd niður af þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni. Ungverjar vildu í mörg ár endurbyggja brúnna, en Slóvakar voru algjörlega á móti því þar til fyrir rúmu ári síðan.

Frá Dómkirkjunni var ekið sem leið liggur upp til fjalla, til Wisegrád sem gamalt virki upp á fjallstoppi, en hluta leiðarinnar fengum við harla kunnuglegt veður, smá snjókorn. Við virkið er veiðikofi sem rekinn er sem veitingastaður, og þar var boðið upp á í forrétt súpu með kjöti af villisvíni, dádýrakjöt með kartöflurúllum í aðalrétt og einhvern mjög sérstakan búðing í eftirrétt. Undir borðhaldi spilaði sígaunahljómsveit ýmsa gamla ungverska tónlist, og nokkur lög að auki, eins og t.d. “Viva el Spania” – einstaklega sérstök þjóðlegheit það.... Úti skiptist á bjartviðri og snjókoma, og þegar birti, þá fengum við mikið og fallegt útsýni yfir Dónánna og umhverfið allt í kring.

Frá Wisegrád var haldið til baka til Szentendre þar sem fararstjórinn gekk með okkur í gegn um aðalgötu gamla bæjarins og eftir það fengum við frjálsan tíma til að skoða söfn, kíkja í verslanir, sem nóg var að á staðnum eða fara á kaffihús. Við völdum það að kíkja í verslanir og loksins fundum við minjagripaverslanir og postulínsverslanir sem hægt var að versla í, þannig að við komum ekki alveg tómhent heim.

Þegar frjálsi tíminn var liðinn var haldið sem leið liggur inn í Budapest aftur og ekið í gegn um hana út á flugvöll. Þar þurftum við að bíða í dágóða stund, enda varð seinkun á fluginu heim, alveg um klukkutíma, en hluti þess tíma vannst upp aftur vegna meðvinds á leiðinni heim. Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem komu inn úr dyrunum heima tæplega hálf tvö um nóttina reynslunni ríkari.