20 maí 2003

Um helgina komst ég í gang með að snyrta aðeins í kring um húsið, enda ekki vanþörf á eftir veturinn. ég var búin að fjárfesta í tveimur kössum af stjúpum og fóru Þeir í beðin meðfram húsinu og í potta á veröndina. Það er með ólíkindum hvað þessi blóm geta breytt útlitinu og lífgað upp á. Ég er a.m.k. farin að hlakka til Þegar Þær verða allar komnar í blóma. En það er óneitanlega mikið verk ennþá fyrir höndum í beðunum og í að hreinsa stéttunum. Svo er húsið innanhúss smám saman að verða hreinna og hreinna, og ég að verða tilbúin í að njóta sumarsins.

Í gærkvöldi fór ég með vinkonum mínum á kaffihús, nánar tiltekið á Kaffi París, en það kaffihús verður oft fyrir valinu hjá okkur. Við áttum notalega stund saman, en eins og venjulega þá flýgur tíminn alveg ótrúlega hratt og áður en við vissum af var klukkan að verða hálf tólf. Það var mikið líf í miðborginni í gærkvöldi, margir í kvöldgöngu enda veðrið alveg frábært og þegar við komum út var ennþá næstum alveg bjart. Það var líka virkilega gaman að fylgjast með mannlífinu og margt skrautlegt fólk á ferðinni. Við fylgdumst með sýningarstelpunum á leið til vinnu á Óðali, o.s.frv. Á austurvelli voru tveir strákar á stuttermabolum í leik með frisbídiska.

02 maí 2003

Þetta sumar var helst til stutt. A.m.k. er ég ekki sátt við þennan kulda eftir annars gott vor. Úlfarsfellið var hvítt í gær alveg niður á láglendi en sem betur fer sluppum við algjörlega við snjóinn, það er meira en hægt var að segja um aðra. Að minnsta kosti var hvítt yfir á að líta á Selfossi, og líklegast var meiri snjór á Hellisheiðinni en meirihluta vetrar.

Síðustu vikur eru búnar að vera frekar sérstakar, þrír fimmtudagar í röð þar sem er frí frá vinnu, skv. dagatalinu a.m.k. Næsta vinnuvika verður örugglega erfið, heilir fimm virkir dagar. Og nú er kominn annar föstudagur þessarar viku - er nema von að maður ruglist aðeins í dagatalinu.

Annars átti ég góðan frídag í gær. Deginum var ekki eytt í kulda og trekki í kröfugöngu verkalýðsins og á baráttufundum, eða á kafflihlaðborðum verkalýðsfélaganna. Nei, við nutum þess að eiga frí og fórum eftir hádegið austur fyrir fjall í Fljótshlíðina í sumarbústað til mágs míns og fjölskyldu hans. Þar áttum við notanlegan dag við spjall, spiluðum kana í gríð og erg. Krakkarnir voru að reyna að leika sér úti í sólinni, en gáfust fljótlega upp á því út af kulda, enda var hífandi rok - ekta gluggaveður. Við grilluðum samt úti í kuldanum og tókum síðan aðra umferð af kana.