Síðustu dagana hefur litla skottan mín verið lasin, fór fljótlega heim úr skólanum á mánudaginn með hita og kvef, hósta og kvartaði um í maganum, en er öll að hressast, vaknaði hitalaus í morgun, og er ennþá nokkuð hress, sem ég vona að sé forsmekkurinn að því sem verður í dag.
Nýja árið fer vel af stað og svo vel að það er kominn miður mars áður en við er litið. Það hefur ekki mikið markvert gerst á þessum mánuðum, a.m.k. ekki neitt sem á erindi á þessa síðu.
Ég er reyndar búin að skrá mig á námskeið hjá
Guðrúnu Erlu á Riverside á Hótel Selfoss og hlakka mikið til að fara. Ég er búin að sjá þau verkefni sem í boði eru fyrri hluta dags, og lofa þau góðu, og er ég búin að velja hvort verkefnið mig langar að taka. Eftir hádegi er svo óvissuverkefni sem verður spennandi að takast á við.
BerlínÉg ætlaði fyrir löngu að skrifa um ferðina til Berlín í haust, en það hefur dregist "örlítið" að úr því yrði, og ég er hræddust um að það hafi margt gleymst eftir því sem lengra líður frá.
Þann 17. september 2010 rann ferðadagurinn upp. Við áttum að fljúga frá Íslandi um þrjú leytið, en við fengum tilkynningu um að fluginu hefði seinkað um klukkutíma, sem kom sér mjög vel fyrir mig, því fyrir vikið gat ég lokið þeim verkefnum sem ég ætlaði að ljúka við í vinnunni fyrir brottför. Þegar við komum í flugstöðina sáum við að það var rúta á undan okkur, svo að við stoppuðum fyrir framan flugstöðina og drifum okkur út með töskurnar til að vera á undan hópnum úr rútunni að tékka okkur inn, og það hafðist. Eftir inntékkunina fórum við upp í gegn um gegnumlýsinguna og gekk allt alveg ótrúlega vel. Við kíktum á fríhöfnina í rólegheitunum og versluðum sitthvað smálegt til að taka með okkur. Það var gott að setjast niður í rólegheitunum í kaffiteríunni og fá okkur að borða, enda var nægur tími ennþá til stefnu, það varð örlítið meiri seinkun á fluginu. Þegar við höfðum setið dágóða stund í rólegheitunum, stundi bóndinn allt í einu upp: "Veistu hverju við gleymdum?" Ég hafði ekki hugmynd um það, en taldi að það væri þá eitthvað sem við gætum þá bara keypt þegar við værum komin út. "Nei, bíllinn er ennþá í stæðinu fyrir framan flugstöðina". Sem betur fer mundi hann þó eftir þessu áður en við fórum út, og náði að færa hann tímanlega, en við gátum ekki annað en hlegið að þessu eftirá. Flugið gekk vel og úti fundum við fljótlega lestarstöðina og lestina sem átti að flytja okkur á áfangastaðinn, Schönhauser Alle, næstu lestarstöð við íbúðina sem við vorum búin að panta. Við vorum búin að fá þær upplýsingar að lestin sem við tókum myndi fara alla leið frá flugvellinum á áfangastað, en við vorum svo einstaklega heppin að hitta á tímabil þar sem verið var að gera við hluta af járnbrautakerfinu og því þurftum við að skipta um lest í millitíðinni, sem gekk samt mjög vel.
Við vorum með góðar leiðbeiningar að íbúðinni, og það gekk mjög vel að komast þangað, og þar beið okkar starfsmaður frá íbúðaleigunni sem afhenti okkur lykla að
íbúðinni. Íbúðin var í sjálfu sér ágæt, staðsett uppi á fjórðu hæð, en í þessu húsi er hver hæð á við eina og hálfa hæð hér heima. Það var því talsvert puð að labba upp alla stigana með farangurinn, þar sem engin lyfta er í húsinu. Við vorum hins vegar mjög ánægð með staðsetninguna á henni, því að hverfið er mjög rólegt en stutt í alla þjónustu, þar á meðal verslunarmiðstöðina
Schönhauser Alle arcaden og járnbrautastöðina. Þetta svæði tilheyrir eystri hluta borgarinnar og við sáum það í ferðabók að vesturþjóðverjar hafa verið duglegir að kaupa íbúðir á þessu svæði, og það þykir frekar vinsælt meðal yngri fólksins. Það er samt áberandi fyrir hverfið mikið veggjakrot og húsin sum hver ansi illa á sig komin, og stundum höfðum við á tilfinningunni að við værum í hálfgerðu Harlem hverfi, nema hvað við urðum ekki mikið vör við fólk á ferli í hverfinu. Í íbúðinni höfðum við það samt sterklega á tilfinningunni að við værum dvergar, þar sem efri skáparnir í eldhúsinum voru svo hátt uppi að ég þurfti stól til að ná í allt sem var ofar en í neðstu hillunni, og í svefnherberginu var hilla fyrir ofan rúmið sem var sömuleiðis mjög hátt uppi. Rúmið var hins vegar andstæða, þar sem það var svo lágt niðri, að við vorum komin niður undir gólf þegar við lögðumst í það. Í íbúðinni var síðan hvorki sjónvarp né útvarp, en við bættum úr því með því að kaupa okkur útvarp til að hafa í íbúðinni.
Eftir að við vorum búin að koma okkur aðeins fyrir skruppum við út á aðalgötuna í von um að finna einhverja verslun þar sem við gætum keypt okkur eitthvað að borða og í morgunmatinn fyrir næsta dag. Við enduðum á að fara inn á McDonalds og fá okkur grænmetisvefjur.
Daginn eftir fórum í gönguferðir um hverfið og í verslunarmiðstöðina, keyptum inn helstu nauðsynjar og skoðuðum okkur um. Annars var dagurinn tekinn rólega.
Á sunnudeginum var dagurinn tekinn snemma. Við tókum lestina að Tiergarten, að sautjánda júní stræti. Þar var stór og mikill antik og listaverkamarkaður, á mjög stóru svæði. Við eyddum dágóðum tíma í að skoða hluta markaðarins, en þar sem við ætluðum að gera ýmislegt um daginn, þá fór svo að það var ekkert keypt þótt ýmiss áhugaverður varningur væri þar á boðstólum, allt frá gömlu glingri, borðbúnaði og ýmsum skrautmunum upp í heilu antikskápanna og allt þar á milli. Við fengum okkur göngutúr áfram um 17. júní stræti (sem ekki er skýrt eftir þjóðhátíðardegi Íslendinga)og fórum í almenningsgarðinn Tiergarten, sem er stór og mikill almenningsgarður í miðborginni. Þetta er stór og mikill garður, og greinilega mikið nýttur hjá bæði skokkurum og hjólreiðafólki, og ferðafólki líka. Þessi gata hét áður Charlottenburg Chausee en var endurskýrð eftir atburði sem urðu á götunni þann 17. júní 1953 þegar mikill fjöldi verkamanna lést þegar rauði herinn og lögregla skaut á þá þar sem þeir voru í kröfugöngu. Við skoðuðum minningasvæði um sovéska hermenn en um 80.0000 sovéskir hermenn létust í seinni heimstyrjöldinni í Berlín einni. Við minnismerkið er mikil myndasýning frá þessum tíma og það er hryllileg sjón að sjá alla þá eyðileggingu og mannfall sem var í þessari tilgangslausu heimsstyrjöld.
Við endann á 17. júní götu og við upphaf Unter den linden stendur hið fræga Brandenburgarhlið. Þar var mikið líf og fjöldi fólks sem var að skoða svæðið. Við brugðum okkur á kaffihús við Unter den linden og horfðum á mannlífið útifyrir og hvíldum lúin bein, áður en við héldum svo áfram göngu okkar um götuna. Það er margt að sjá við þessa götu, margar fallegar og sögufrægar byggingar. Við tókum nokkra útúrdúra út frá götunni, upp hliðargötur og kíktum á kirkjur og skoðuðum byggingarnar að utan, enda var farið komið undir kvöld. Á torgi einu var minnismerki um bókasafn sem var staðsett á torginu en brann. Minnismerkið var dálítið merkilegt þar sem það var einn gluggi á torginu og þegar við horfðum niður um gluggan, þá sáust tómar bókahillur.
Þar sem við vorum orðin frekar lúin í fótunum þá tókum við strætó niður á Alexanderplatz þar sem við stefndum á að fá okkur að borða. Þar var stórt tjald og barst þaðan mikil tónlist. Þarna var haldin oktoberfest í Berlin, og við létum okkur ekki vanta. Það var
þýsk hljómsveit sem spilaði líflega tónlist og var mjög gaman að upplifa þetta. Á hátíðinni var einn dálítið sérstakur náungi sem labbaði um allt með krakkalúður og spilaði með hljómsveitinni og skemmti sér greinilega konunglega, en það heyrðist ekkert í lúðrinum. Það voru frekar þreyttir ferðalangar sem komu upp í íbúð um miðnætti.
Næsti dagur var tekinn rólega, farið í verslunarmiðstöðina, farið í göngutúra um hverfið og síðan elduðum við heima um kvöldið.
Röðin á því sem við gerðum næstu daga er ekki alveg á hreinu. Einn daginn tókum við strætó niður á Alexander platz, og gengum um hverfið. Við skoðuðum dómkirkjuna í Berlín sem er stórglæsileg kirkja og með mikla sögu. Við kíktum á Neptúnusarbrunninn, Mariannekirkjuna við hliðina, síðan gengum við um hverfin í kring, meðfram ánni og skoðuðum safnaeyjuna. Þar völdum við að skoða Pergamon safn, sem tekur fyrir byggingarlist í gegn um aldirnar og er aðaláhersla lögð á lönd í austurlöndum fjær og er alveg stórmerkilegt safn og alveg þess virði að skoða. Við vorum að velta fyrir okkur að skoða líka þýska sögusafnið en sáum að við hefðum ekki nægan tíma til að skoða það svo vel væri, þannig að það átti að bíða betri tíma sem verður vonandi í einhverri ferð þangað síðar. Fyrir utan sögusafnið sáum við að búið var að leggja tveimur traböntum og síðan bættust við hver trabantinn á fætur öðrum. Þetta var trabantaleiga þar sem hægt var að leigja trabanta til ferðast á. Við létum okkur nægja að horfa á bílana og fólkið sem var að skoða þá. Í nágrenninu fórum við inn í mjög merkilega byggingu, minnismerki um fórnarlömb stríða. Þetta var algjörlega tóm bygging fyrir utan eitt búddalíkneski í miðju hennar. Við kíktum líka aðeins í Gallery Kaufhof á Alexanderplatz og CA, áður en við tókum lestina heim á leið.
Einn daginn notuðum við til að fara og kíkja á
Charlottenburgarhöll sem er stærsta höll Berlínar. Elsti hluti hennar var byggður á 17. öld af Friðriki III hertoga Brandenburgar og tileinkuð konu hans Sophie Charlotte. Þetta er stór og falleg höll, með glæsilegum herbergjum, hverju öðru skreyttu fallegum málverkum og húsgögnum frá þeim tíma er höllin var byggð. Reyndar skemmdist höllin talsvert í heimssyrjöldunum tveimur og því voru sum húsgögnin fengin annars staðar frá. Í höllinni er mjög falleg kapella og stórglæsilegur dans- og veislusalur. Mér fannst mjög gaman að skoða þennan hluta hallarinnar. Við höllina var síðan byggður annar hluti síðar, og er kallaður nýji vængurinn, og var hann allt annars útlits, og sáum við eftir að hafa eytt tíma og peningum í að skoða þann hluta, þar sem hann var mjög lítið merkilegur. Það voru helst málverkin gömlu sem var gaman að skoða.
Við enduðum daginn á að fara á Indverskt veitingahús ekki langt frá íbúðinni okkar og stóðst það fyllilega væntingar.
Einn daginn fórum við með lestinni á nýjar slóðir, við stefndum á að fara að skoða
Kaisers Wilhelms minningarkirkjunni en hún var að mestu leyti sprengd niður í seinni heimsstyrjöldinni en það sem eftir var af henni var breytt í safn til minningar um alla þá sem létust í styrjöldinni. Eitthvað hafði frúin misskilið leiðakort lestanna og endaði á að við fórum út á kolvitlausum enda á Kufurstendamm, langt frá kirkjunni, og við tók gangan mikla á leiðinni að henni. Alltaf héldum við að nú færi að koma að henni, en leiðin reyndist frekar löng þegar til kom. Við komumst samt á leiðarenda að lokum. Við skoðuðum minningarkirkjuna og einnig nýju kirkjuna sem byggð var við hliðina á þessari gömlu. Ég get nú ekki sagt að þessi nýja kirkja hafi vakið mikla hrifningu hjá okkur. Síðan settumst við á kaffihús við hliðina á kirkjunni og nutum mannlífsins. Gengum síðan um allt hverfið og skoðuðum okkur um.
Daginn áður en við flugum heim hafði ég samband við íbúðaleiguna til að athuga hvort að við gætum fengið að hafa íbúðina aðeins lengur daginn eftir svo að við gætum geymt farangurinn þar og tekið aðeins daginn rólega áður en við færum út á flugvöll. Sá sem ég talaði við bað mig bara um að láta sig vita hálftíma áður en við færum. Við tókum síðan morguninn rólega, kláruðum að pakka niður, og þegar við vorum langt komin með að taka okkur saman, þá heyrum við að lykli er stungið í skránna og kona kemur inn. Hún var fljót að stökkva út aftur og skella á eftir sér, en hringdi síðan dyrabjöllunni. Hún sagðist vera frá íbúðaleigunni og ætti að þrífa því að það væri að koma fólk í íbúðina klukkan fjögur. Ég sagði henni þá að við hefðum hringt í íbúðaleiguna og okkur sagt að við gætum verið með íbúðina lengur. Einhver misskilningur hefur verið þarna á ferðinni, en við drifum okkur í að klára að taka saman og konan byrjaði að þrífa svefnherbergið og baðherbergið á meðan að við kláruðu. Allt bjargaðist þetta og við tókum lestina niður á Alexanderplatz þar sem við fundum hólf til að setja töskurnar okkar í. Þar sem við þekktum þetta kerfi ekki alveg, þá sáum við eitt opið hólf. Bóndinn nefndi að það væri enginn lykill í hólfinu og ég tald að líklegast dytti hann niður þegar búið væri að setja peninginn í. Ekki var það nú alveg heldur sáum við það á síðasta hólfinu sem var fyrir ofan okkar að þar stóð lykill út, en á meðan við höfðum verið að setja farangurinn í lyklalausa hólfið þá kom fólk sem var að setja farangurinn sinn í síðasta lausa hólfið fyrir ofan okkur. Þegar þau sáu í hvaða vandræðum við vorum, þá tóku þau farangurinn sinn aftur til baka og sögðu okkur að taka það, þau gætu notað minni hólf sem voru laus innar í ganginum. Þetta blessaðist því allt saman. Við settumst síðan út á torg, nutum veðurblíðunnar en þennan dag var sannkallað sumarveður með miklum hlýindum og sól. Á torginu er mikil myndasýning um aðskilnað austurs og vesturhluta borgarinnar og fall múrsins og gáfum við okkur góðan tíma til að skoða þessa sýningu. Það er í rauninni ótrúlega stutt síðan múrinn féll, en breytingarnar fyrir austur Þjóðverja urðu alveg gífurlegar. Miðað við myndirnar að dæma, hefði mátt ætla að fall múrsins hafir verið á milli 1960 og 1970 því að klæðnaður og bílaeign austantjaldsbúa var svo langt á eftir samtímanum. Seinnipart dagsins sóttum við farangurinn og tókum síðan lestina út á flugvöll. Eftir á að hyggja sáum við að það var mjög gott að við skyldum ekki hafa íbúðina áfram því að það hefði verið allt of mikið vesen að fara aftur til baka til að sækja farangurinn.
Ég get ekki sagt að Berlín sé falleg borg, á köflum fannst mér hún frekar í niðurníðslu og sóðaleg. En hins vegar er saga þessarar borgar alveg ótrúleg og mikil, og mig langar til að koma þangað aftur til að skoða mig betur um þarna, sjá fleiri söfn og skoða fleiri byggingar.