Helgin var mjög ánægjuleg og notaleg. Við hjónin áttum notalega stund fyrir framan arininn á föstudagskvöldinu og skoðuðum teikningar og blöð, og var mikið spáð og spekúlerað. Þessi arinn hefur veitt okkur ófáar ánægjustundir og notalegheit, ég tala nú ekki um í góðra vina hópi, með fjölskyldunni, t.d.
Laugardagurinn var rólegur framanaf, enda betra að safna kröftum fyrir kvöldið. Rétt fyrir klukkan 18:00 vorum við mætt heima hjá vinafólki okkar, og þaðan var stormað niður í bæ, á veitingastaðinn Vegamót. Sá staður kom mér verulega á óvart. Hann er algjörlega laus við notalegheit, er frekar hrár að innan en maturinn er mjög góður og á góðu verði. Ég pantaði mér djúpsteiktan kammebertost, með ristuðu brauði og sallati, en bóndinn fékk sér humarsúp sem var uppfull af alvöru humarhölum. Í aðalrétt fengum við okkur svo nautasteik, með steiktum kartöflum og sallati. Steikin kitlaði bragðlaukana svo sannarlega. Með þessu öllu drukkum við glas af rauðvíni hvort. Eftir matinn var skundað í leikhúsið til að sjá leikritið með fullri reisn. Leikritið er verulega skemmtilega fram sett, heimfært á íslenskan markað, mikið af skemmtilegum senum. Leikararnir stóðu sig líka almennt mjög vel, sungu eins og englar. Eftir leikhúsið var haldið niður í þjóðleikhúskjallarann hinn fræga, á hið árlega ball með spöðunum. Þetta er greinilega vinsæl hljómsveit ef marka má mannfjöldann sem var saman kominn á staðnum. Það sem skyggði á ballið var að það var svo mikið skvaldur þannig að það heyrðist minna í hljómsveitinni en maður hefði óskað. En það aftraði ekki fjölda manns að stíga dans við undirleik þeirra, og þeir sem ekki komust fyrir á dansgólfinu fundu sér bara stað fyrir utan það til að tjútta. Það var slegist um hvert sæti í salnum en við vorum svo heppin að ná sætum í hliðarsal, en óheppin með það að við heyrðum aðeins óm af hljómsveitinni obb obb bobb, os.frv. Það var líka tilbreyting að þeir sem voru á staðnum voru á öllum aldri, einkum þó í eldri kanntinum, þótt sjá mætti yngri innan um. Þetta er hljómsveit sem mig langar til að hlusta á í betra tómi heima í stofu.
Á sunnudeginum var okkur svo boðið í kaffi til mágkonu minnar sem ákvað að bjóða systkynum sínum í smá kaffisopa. Við áttum með þeim góða stund við kræsingar og létt spjall.