25 febrúar 2003

Helgin var mjög ánægjuleg og notaleg. Við hjónin áttum notalega stund fyrir framan arininn á föstudagskvöldinu og skoðuðum teikningar og blöð, og var mikið spáð og spekúlerað. Þessi arinn hefur veitt okkur ófáar ánægjustundir og notalegheit, ég tala nú ekki um í góðra vina hópi, með fjölskyldunni, t.d.

Laugardagurinn var rólegur framanaf, enda betra að safna kröftum fyrir kvöldið. Rétt fyrir klukkan 18:00 vorum við mætt heima hjá vinafólki okkar, og þaðan var stormað niður í bæ, á veitingastaðinn Vegamót. Sá staður kom mér verulega á óvart. Hann er algjörlega laus við notalegheit, er frekar hrár að innan en maturinn er mjög góður og á góðu verði. Ég pantaði mér djúpsteiktan kammebertost, með ristuðu brauði og sallati, en bóndinn fékk sér humarsúp sem var uppfull af alvöru humarhölum. Í aðalrétt fengum við okkur svo nautasteik, með steiktum kartöflum og sallati. Steikin kitlaði bragðlaukana svo sannarlega. Með þessu öllu drukkum við glas af rauðvíni hvort. Eftir matinn var skundað í leikhúsið til að sjá leikritið með fullri reisn. Leikritið er verulega skemmtilega fram sett, heimfært á íslenskan markað, mikið af skemmtilegum senum. Leikararnir stóðu sig líka almennt mjög vel, sungu eins og englar. Eftir leikhúsið var haldið niður í þjóðleikhúskjallarann hinn fræga, á hið árlega ball með spöðunum. Þetta er greinilega vinsæl hljómsveit ef marka má mannfjöldann sem var saman kominn á staðnum. Það sem skyggði á ballið var að það var svo mikið skvaldur þannig að það heyrðist minna í hljómsveitinni en maður hefði óskað. En það aftraði ekki fjölda manns að stíga dans við undirleik þeirra, og þeir sem ekki komust fyrir á dansgólfinu fundu sér bara stað fyrir utan það til að tjútta. Það var slegist um hvert sæti í salnum en við vorum svo heppin að ná sætum í hliðarsal, en óheppin með það að við heyrðum aðeins óm af hljómsveitinni obb obb bobb, os.frv. Það var líka tilbreyting að þeir sem voru á staðnum voru á öllum aldri, einkum þó í eldri kanntinum, þótt sjá mætti yngri innan um. Þetta er hljómsveit sem mig langar til að hlusta á í betra tómi heima í stofu.

Á sunnudeginum var okkur svo boðið í kaffi til mágkonu minnar sem ákvað að bjóða systkynum sínum í smá kaffisopa. Við áttum með þeim góða stund við kræsingar og létt spjall.

20 febrúar 2003

Ég var fyrir nokkrum dögum að frétta af síðu gamals sögukennara míns, hans Erlings. Og þar sem mér fannst þetta alltaf mjög skemmtilegur kennari, með aðra sýn á veruleikann heldur en margir samferðamenn okkar, hef ég drukkið í mig alla pistla hans síðan ég frétti af síðunni. Lífið er nefnilega ekki bara svart og hvítt, það eru til fleiri litbrigði, og það er bara að finna þau.

Ég hélt ég yrði ekki eldri í gær yfir pistlinum hans Þráins Bertelssonar í fréttablaðinu í gær. Þar gerir hann stólpagrín af skattstofufólki, sem hann segir hafa hingað til lagt sig í smáfiskadráp, eins og kvikmyndagerðarmenn og myndbandaleigur, í stað þess að ráðast að stórlöxunum. Mætti ætla að hann hafi einhverja reynslu af því sjálfur eða einhver honum tengdur. Hvað veit maður? Hins vegar veit ég að margt smátt gerir eitt stórt. Það er reyndar ekki á hverjum degi sem skattyfirvöld komast í jafn mikinn fjársjóð og skattrannsóknarstjóri komst í þegar hann skoðaði Jón blessaðan. Og okkar ástkæri forsætisráðherra er örugglega glaður ef að sjálfu Jón Ólafsson getur bjargað fjármálum ríkisins svona á einu bretti.

Þvílíkur munur að koma hér inn eftir að þetta hotbardæmi er dottið út.

Nýji borgarstjórinn í Reykjavík lofar góðu. Það sá ég eftir kastljósþáttinn í gærkvöldi. Hann lét Björn Bjarnason ekki setja sig út af laginu og svaraði öllum árásum frá honum snöggt og málefnalega. Það er ábyggilega meira en að segja það að eiga í höggi við gamalreyndan stjórnmálamann sem er vanur að koma fram og rífast við aðra stjórnmálamenn, þegar menn hafa sjálfir ekki staðið í eldlínunni sjálfir.

18 febrúar 2003

Arrrrgggggh !!!!!!! Ég hef einhvernveginn náð að troða einhverju hotbari inn á bloggið hjá mér og næ því ekki út aftur. Það er svona að vera að fikta eitthvað, maður þarf að vera nógu lunkinn til að koma sér út úr vandræðunum aftur. Þann fídus vantar greinilega í mig. Ég auglýsi hér með eftir góðum ráðum.

Nýja vikan komin á bullandi sving, þriðjudagurinn skollinn á bara rétt sí svona. Tíminn er svo fljótur að líða að mér gengur erfiðlega að halda í hann stundum, enda hef ég haft nóg að gera.

Helgin var alveg óskaplega ánægjuleg. Laugardagurinn fór í góða föndurstund með vinkonu minni sem ég hef ekki hitt í langan tíma. Það leynast listamenn, líka í því fólki sem telur sig ekki kunna að föndra, a.m.k. uppgötvaði ég leyndan hæfileika hjá henni. Og það sem uppúr stóð var alveg einstaklega ánægjulegur dagur með vinkonu sem ég hef átt margar skemmtilegar stundir með um æfina. Laugardagskvöldið var líka fengur fyrir svona júróvisjonaðdáanda eins og mig. Að mínu mati er íslenska undankeppnin óvenju góð þetta árið, og virkilega erfitt að gera upp við sig hvaða lag væri best. Ég þurfti að sætta mig við að lagið sem ég valdi komst í þriðja sætið, það hefði getað verið verra. En ég varð óneitanlega undrandi yfir öðru sætinu, enda eins ójúróvisjónað lag og frekast er unt að hafa það. En sigurlagið kom svo sem ekkert á óvart, ég sé alveg fyrir mér hóp af smástelpum á hverju heimili að hringja inn og velja hana Birgittu sína, aðalátrúnaðargoðið. Og ég reyndar þakklát fyrir það að hún skuli vera átrúnaðargoð krakkanna, kemur mjög vel fyrir og gerir sér greinilega mjög vel grein fyrir því að hún verður að vera góð fyrirmynd. Það verður fróðlegt að sjá hversu vel evrópubúar kunna að meta hana.

Sunnudagurinn var ekki síður ánægjulegur en laugardagurinn. Þá fengum við vinafólk okkar í heimsókn ásamt tveimur fjörkálfum, og áttum sama skemmtilega dagstund við kaffidrykkju og pizzuát. Svona helgar finnst mér alltaf jafn skemmtilegar, þegar það er nóg að gera og tímanum er eytt í góðum félagsskap.

14 febrúar 2003

Það er orðinn langur tími sem ég hef svikist um að skrifa hérna, en andinn hefur ekki verið allt of duglegur að fylla mig hugmyndum en koma tímar koma ráð.

Annars hefur verið margt fréttnæmt í þjóðfélaginu þessa dagana. Það er farið að styttast í kostningar og eru farin að sjást ýmis merki þess inni á þingi. Davíð lagði fram þessa frábæru hugmynd sína að lækka skatta - á næsta kjörtímabili. Ég hef ennþá ekki heyrt í neinum sem ætlar að kjósa sjálfstæðisflokkinn út af þessu loforði, enda hefur hann haft góðan tíma til þess hingað til að lækka skatta. Samfylkingarmenn eru svo á fullu að verjast árásum um að þeir skyldu ekki vera búnir að leggja fram hugmyndir um ný störf fyrir löngu út af því að stjórnarflokkarnir fengu allt í einu þá hugmynd að sniðugt væri að bæta við störfum. Alveg súper kostningabrall, eða þannig. Það er greinilegt að framganga Ingibjargar Sólrúnar hefur skapað ansi mikinn titring innan þeirra.

Það er greinilegt að Jón Kristjánsson er á rangri hillu, eða réttara sagt, í vitlausu ráðuneyti. Ég hugsa að hann hefði orðið góður umhverfisráðherra, og spurning hvort að Sif hefði ekki staðið sig betur í heilbrigðisráðuneytinu. Það er víst of seint að kanna það núna.

Aumingja Jón Ólafsson, skattrannsóknarstjóri leggur hann í einelti þessa dagana. Það má greinilega ekki "gleyma" að telja fram örfáa miljarða til skatts.