Aftur af stað
Eftir mikið brambolt er ég loksins kominn með lykilorðið inn á þetta gamla blogg mitt. Núna ætla ég að gera aðra tilraun til að blogga, eftir 6 ára bloggleysi. Það er ótrúlega gaman að sjá gömlu færslurnar og sjá hvað ég var að gera og hugsa á þessum tíma fyrir tæpum 6 árum.
Ætla að sjá til hvort ég verð eitthvað duglegri að blogga núna en síðast.
Dagurinn í dag var að mestu leyti ánægjulegur, þó að ein uppgötvun seinnipartinn hefði orðið þess valdandi að gleðin yfir fyrri hluta hans varð ekki alveg eins langvinn, en ég komst að því að Jóhannes Bekk skólabróðir og hópfélagi frá Bifröst dó í janúar, og ég hafði ekki haft hugmynd um það. Það er eftirsjá eftir skemmtilegum og góðum manni sem honum, þó að ég hafi lítið haft af honum að segja eftir að við kláruðum námið.
Eftir góða helgi í sælureitnum okkar á Mýrunum komum við í bæinn í um eittleytið og fór ég beinustu leið upp í kirkju þar sem æfingin fyrir 60 ára afmælismessu óháða safnaðarins stóð sem hæst. Kristjana Stefánsdóttir söng með okkur í þessari messu, en að auki flutti hún nokkur lög ásamt Árna Heiðari og Gunnari bassaleikara. Messan var mjög vel heppnuð og var stemmingin í kirkjunni virkilega góð. Eftir messuna var svo virkilega flott hátíðarkaffiveisla.
Núna er á áætlun að skella mér í smá göngutúr, þó að það hafi heldur kólnað úti, og vottað hafi fyrir snjókornum áðan.
1 Ummæli:
Velkomin aftur í bloggheima. Vona að þú sjáir þér fært á að skrifa hér inn reglulega því það er mjög gaman að lesa skrifin þín!
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim